Mikilvægt að hafa stað til að mæta á og spjalla við fólk

Það var mikið fjör á foreldramorgni í Emil&Línu þegar sunnlenska.is kíkti við í morgun. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Foreldramorgnarnir í barnafataversluninni Emil&Línu hafa heldur betur slegið í gegn síðan þeir hófu göngu sína í júní síðastliðnum.

„Hugmyndin um foreldramorgnana spratt upp stuttu eftir að við opnuðum í byrjun sumars. Okkur fannst vanta vettvang fyrir foreldra og börn á svæðinu til að hittast og tengjast og einhvern fastan lið fyrir þau í hverri viku,“ segir Jóna Alla Axelsdóttir, sem hefur umsjón með foreldramorgnunum, í samtali við sunnlenska.is.

„Það er svo ótrúlega mikilvægt, sérstaklega fyrir foreldra í fæðingarorlofi, að hafa stað til að mæta á og geta spjallað við fólk í svipaðri stöðu og notið kaffibolla í öðru umhverfi en heima. Ef fólk hefur það ekki eru svo miklar líkur á að einangrast,“ segir Jóna Alla en verslunin Emil&Lína er staðsett í Austurgarði á Selfossi.

Jóna Alla Axelsdóttir. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Góðar viðtökur frá byrjun
Fyrsti foreldramorguninn í Emil&Línu var haldinn í lok júní og vakti strax mikla lukku. „Þá kom Chrissie Telma frá Listaakademíunni til okkar og var með tónlistartímann Krílafjör fyrir börnin. Börn niður í nokkurra mánaða gömul spiluðu þá á hljóðfæri og nutu þess að hlusta á skemmtileg lög.“

„Alveg frá byrjun hefur verið tekið rosalega vel í þetta og oftar en ekki er góð mæting. Oft kemur sama fólkið aftur og aftur en það er alltaf einhver nýr líka og stundum rambar fólk á þetta þegar það ætlaði að koma að versla og slæst þá í hópinn. Við höfum fengið góðar undirtektir og foreldrar á svæðinu virðast sammála okkur í því að þetta hafi vantað hér.“

Á foreldramorgnum myndast oft dýrmætur félagsskapur. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Fræðsluerindi og skemmtun
Jóna Alla segir að foreldrarmorgnarnir séu ekki takmarkaðir við einhvern ákveðinn aldur. „Við bjóðum öllum foreldrum að mæta með börn á öllum aldri. Flest þeirra sem koma eru með börn undir 12 mánaða og enn í orlofi en einnig er algengt að þau sem ekki hafa fengið dagvistun eða velji að setja börnin sín ekki í dagvistun nýti sér þetta.“

„Alla fimmtudaga erum við með opið hús milli 10 og 12 í verslun okkar en við erum með mjög notalega aðstöðu þar sem börnin geta leikið sér og foreldrar setið saman með kaffið sitt á meðan. Við bjóðum líka alltaf upp á morgunmat, brauð og sætt frá GK bakarí, ferska ávexti og þess háttar.“

„Stundum fáum við í heimsókn einhvern með fræðsluerindi eða skemmtun en stundum er tíminn bara foreldranna til að njóta þess að vera saman. Sem dæmi höfum við fengið til okkar aðila frá Bráðaskólanum að kenna skyndihjálp á börnum, kírópraktor með fræðslu, Ebbu Guðnýju að tala um mataræði barna og fleira. Það er svo margt fleira skemmtilegt á döfinni í haust og vetur.“

Chrissie Telma Guðmundsdóttir sá um Krílafjör í morgun en þetta er í annað sinn sem hún mætir á foreldramorgun í Emil&Línu. Chrissie Telma hefur heldur betur slegið í gegn hvar sem hún kemur. Þess má geta að hún hlaut Menningarverðlaun Suðurlands árið 2022 fyrir verkefnið Fiðlufjör. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Eitthvað um að vera í allan vetur
Jóna Alla bendir á að þau séu dugleg að auglýsa og minna á foreldramorgnana á viðburðinum þeirra á Facebook undir nafninu Foreldramorgnar í Emil&Línu Selfossi.

„Einnig er hægt að fylgjast með okkur á samfélagsmiðlum okkar undir @emiloglina. Við hvetjum fólk til að fylgjast vel með þar og bera orðið áfram til þeirra sem gætu haft gaman af.“

„Við tökum öllum ábendingum frá foreldrum fagnandi um hvers konar dagskrá þau hefðu gaman af, hvað það er sem við gerum vel og hvað mætti betur fara. Þetta er gert fyrir foreldrana svo það er okkur mikilvægt að þetta sé sniðið að þeirra þörfum og löngunum. Fimmtudaginn í næstu viku verðum við með einskonar kynningarpartý fyrir iCandy vörurnar. Við hlökkum mikið til að taka á móti öllum á fimmtudögum í vetur!“ segir Jóna Alla að lokum.

Í Emil&Lína verzlun má finna mikið úrval af barnavörum frá merkjunum Born in Iceland, Mayoral, Lenne og iCandy. Fatnaðurinn hentar frá nýfæddu og upp í 16 ára. Verslanir Emil&Línu eru staðsettar á Selfossi og Laugavegi. Einnig er hægt að versla sömu vörur í Mayoral í Smáralind og í netverslun okkar emiloglina.is.

Allir foreldrar með börn á öllum aldri eru velkomnir á foreldramorgna í Emil&Línu í Austurgarði á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinÖlfus án sjónhverfinga pólitískra töframanna
Næsta greinValsmenn sterkir á heimavelli