Mikilvægt að ganga á stígum við Rauðafoss

Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Rauðifoss sem er innan Friðlands að Fjallabaki var eitt þeirra svæða sem fékk úthlutað fjármagni úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða.

Undanfarnar vikur hefur fyrirtækið Stokkar og Steinar sf. unnið að framkvæmdum við gerð göngustígs að fossinum ásamt uppgræðslu á gömlum vegslóðum sem liggja um svæðið. Í þessari framkvæmd er lögð áhersla á að göngustígurinn falli sem best að landinu, að efni í stíginn sé af svæðinu, að upplifun að ganga stíginn sé góð og að allur gróður sem þarf að fjarlægja sé notaður til uppgræðslu þar sem þess er þörf. Göngustígurinn er um 2 km langur og liggur frá bílastæðinu að fossinum.

Gönguleiðin á rauðum lista
Gönguleiðin að Rauðafossi er á rauðum lista Umhverfisstofnunar um svæði sem eru í hættu á að tapa verndargildi sínu vegna ágangs ferðamanna. Markmiðið með þessari framkvæmd er að stýra umferð um svæðið og koma í veg fyrir að viðkvæmur gróður eins og mosi verði fyrir skemmdum. Einnig er markmiðið að bæta upplifun gesta að svæðinu með góðum göngustíg og útsýnisstöðum. Þetta er fyrsti áfangi af tveimur, en ráðgert er í öðrum áfanga að gera eina skýra gönguleið ofan við Rauðafoss og upp með Rauðufossakvísl.

Göngustafir rífa upp mosann
Umhverfisstofnun vill vekja athygli á því að umrætt svæði er viðkvæmt og mikilvægt að einungis sé gengið á skilgreindum gönguleiðum. Á hluta svæðisins eru miklar mosaþembur sem þola engan ágang, og því mikilvægt að undir engum kringumstæðum sé gengið út fyrir gönguleiðina á þeim svæðum. Þá þarf göngufólk sem notar göngustafi að hafa í huga að á svæðum þar sem er viðkvæmur gróður eins og mosi, séu göngustafir ekki notaðir þar sem þeir rífa mjög auðveldlega upp mosann.

Fyrri greinHella komin í 5G samband
Næsta greinGríðarlega mikilvæg stig til Selfoss