Mikilvægt að byggja gott samband frá upphafi

Jóhanna og Hallbera, sem er verður næsti efnaleitarhundurinn á Íslandi. Ljósmynd/Jökull Ernir Steinarsson

Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir er mikill reynslubolti þegar kemur að hundaþjálfun. Hún hefur þjálfað leitarhunda, meðal annars fyrir Landsbjörgu og lögregluna, auk þess að halda hvolpanámskeið fyrir nýja hundaeigendur.

Nú þegar einstaklega mikil ásókn er í hvolpa á Íslandi þá er ekki úr vegi að spyrja Jóhönnu hvað sé mikilvægt að hafa í huga þegar fólk fær sér hvolp.

„Að byggja frá upphafi gott samband við hvolpinn svo hann upplifi alltaf traust til eiganda. Það er gert með því að hlúa vel að þeim fyrstu mánuðina, og kynna sér vel hvað hundar þurfa til að lifa eðlilegu lífi. Þar á eftir kemur rútína, hún hjálpar til við að gera þá húshreina og kemur reglu á fóðrun og svefnvenjur,“ segir Jóhanna í samtali við sunnlenska.is.

Jóhanna segir að það sé mikilvægt fyrir nýja hvolpaeigendur að sækja hvolpanámskeið. „Að sækja sér meiri þekkingu og reynslu skiptir höfuðmáli í allri hundaþjálfun og hundaeign. Ég fer sjálf reglulega og leita ráða hjá kollegum, les bækur og reyni að læra meira.“

Aðspurð hver séu algengustu mistökin sem fólk gerir varðandi hunda segir Jóhanna það helst vera þegar fólk þekki ekki hvað hundar þurfa til að lifa eðlilegu lífi. „Göngutúrar eru til dæmis ekki alltaf það besta fyrir hundinn þinn.“

Jóhanna ásamt hundinum Olgu. Ljósmynd/Aðsend

Aldrei of seint að kenna gömlum hundi að sitja
„Ég hef fengið til mín mjög erfið vandamál tengd atferli hunda og þau hafa verið mis alvarleg. Það er alltaf hægt að hjálpa hundum til betri vegar. Það tekur hinsvegar mislangan tíma og fer mikið eftir því hversu mikla vinnu eigandinn er tilbúinn að leggja á sig,“ segir Jóhanna og bætir því við að það sé aldrei of seint að kenna gömlum hundi að sitja. „Það máltæki á bara við um karlmenn,“ segir Jóhanna og hlær.

Jóhanna segir að það sé mismunandi eftir verkefnum og æfingum hversu auðvelt er að kenna ákveðnum tegundum. „En sumar hundategundir eru vissulega meðtækilegri fyrir þjálfun heldur en aðrar.“

Sjálf á hún sína uppáhalds hundategund. „Tegundin sem trónir þarna á toppnum er tegundin „mín“ Cattle Dog eða heelerinn. Þeir eru algerlega einstakir þegar kemur að atferli, eðli, gáfum og þjálfun þeirra. Ofsalega fjölhæfir og harðir hundar sem eru ekki fyrir alla en ég gæti ekki án þeirra verið.“

Langir göngutúrar með hundinn ofmetnir
Jóhanna segir þegar kemur að hundauppeldi kemur þá sé það sé vanmetið að kenna hundi hvað hann á að gera og má gera. „Það er á okkar ábyrgð að leiðbeina hundinum okkar á þann hátt að honum líði vel í eigin skinni, viti sitt hlutverk og að hann fái það sem hann þarf til þess að geta uppfyllt sitt hlutverk og eðli.“

„Það hefur lengi ríkt í menningu okkar að hundar þurfi að fara í göngutúra mörgum sinnum á dag þar sem þeir draga eigandann áfram í búnaði sem oft er því miður til þess fallinn að hamla eðlilegri hreyfigetu og getur þar af leiðandi búið til stífni í vöðvum og skekkt líkamsstöðu, röltandi í eigin hugarheimi algerlega án tengingar eða sambands við eiganda. Algerlega ofmetið fyrirbæri og barn síns tíma,“ segir Jóhanna.

Jóhanna ásamt börnunum sínum, þeim Jökli Erni og Rannveigu Gígju og hestinum Náttfara frá Lindarholti. Jóhanna segir hann vera enn eitt gæludýrið. Ljósmynd/Aðsend

Sá sem stjórnar búnaðinum skiptir mestu máli
Jóhanna mælir með því að fólk fari á námskeið til að læra hvernig maður byggir upp samband við hundinn sinn. „Hvort heldur sem er í göngutúrum, lausahlaupum, hlaupa með hjóli, draga sleða, leika með bolta eða hvað annað sem hundurinn þarf til að lifa eðlilegu lífi. Sum beisli eru betri en önnur og fólk ætti að kynna sér vel hvað passar hverjum hundi fyrir sig. Það er ekki eitt sem hentar öllum og “ Y “ laga beisli eru heppilegust til að skerða ekki eðlilega hreyfigetu hundsins“

„Annars skiptir búnaður í raun minnstu máli, það er sá sem stjórnar búnaðinum sem skiptir máli og hvernig hann notar hann,“ segir Jóhanna.

Að sögn Jóhönnu skiptir miklu máli að gefa hundum almennilegt fóður. „Ef það er mjög ódýrt er það sennilega rusl. En ég er ekki fóðurfræðingur og hef leitað til slíkra til að ráðleggja mér um hvað er best.“

Óttast að „hundaofnæmi“ komi aftur upp þegar COVID lýkur
En hvað finnst Jóhönnu um þessa gífurlega ásókn í hvolpa á tímum COVID-19? „Ég hef nokkrar áhyggjur af því að hið landlæga hundaofnæmi muni koma upp aftur samhliða auknu flugframboði erlendis þegar höftum léttir og að auglýsingar um hunda sem vanti heimili vegna ofnæmis komi aftur fram á samfélagsmiðlum.“

„Mér finnst þetta hafa breyst mikið frá því að ég kom heim úr námi 2015. Fólk hefur tekið mikið við sér varðandi það að leita sér þekkingar á því hvað felst í því að fá sér hund. Ræktendur eiga líka hrós skilið þarna en heimili eru valin vandlega og fólk fær einfaldlega ekki hund sé það ekki tilbúið í þá vinnu sem í því felst,“ segir Jóhanna.

Það er fjörugt dýralíf í kringum Jóhönnu Þorbjörgu. Ljósmynd/Aðsend

Eina einangrunarstöðin á Suðurlandi
Auk þess að vera hundaþjálfari að mennt rekur Jóhanna einangrunarstöðina Mósel sem er staðsett í Holta- og Landsveit. „Covid hefur flækt hlutina töluvert en ég lít björtum augu á framtíðina og ég er ekki frá því að ég sjái ljósið í enda ganganna,“ segir Jóhanna en stöðin opnaði haustið 2018.

„Ferlið er þannig að þegar dýr koma til landsins eru þau flutt úr flugvélinni yfir í sóttvarnaraðstöðu MAST á Keflavíkurflugvelli. Þar eru þau skoðuð af eftirlitsdýralækni og ef allt er í lagi varðandi pappíra og engin augljós merki um sníkjudýr eða smitsjúkdóma eru mér afhent dýrin og við keyrum af stað í sveitina. Þar þurfa þau svo að dvelja í Móseli í fjórtán daga þar sem fylgst er með þeim og ef ekkert kemur upp á eru þau útskrifuð,“ segir Jóhanna en í Móseli eru sextán herbergi fyrir hunda og þrjú fyrir kisur.

Jóhanna hefur starfað í lögreglunni á Suðurlandi með hléum frá árinu 2007. Ljósmynd/Aðsend

Göbbuð í lögguna
Þrátt fyrir að hafa starfað núna sem hundaþjálfari í sex ár og með afburða góðum árangri stóð aldrei til hjá Jóhönnu að starfa við slíkt. „Nei, í rauninni ekki. Ég starfaði lengi við tamningar á hrossum og ætlaði mér alltaf að verða föðurbetrungur og heimsmeistari í gæðingaskeiði en svo var ég „göbbuð“ í að koma og vinna sem lögreglumaður af Oddi yfirlögregluþjóni á Selfossi og ég kenni honum um skort á heimsmeistaratitlinum!“ segir Jóhanna og hlær, en þess má geta að hún er einnig menntaður lögreglumaður og hefur starfað fyrir lögreglustjórann á Suðurlandi með hléum frá árinu 2007.

„Ég fór fyrst til Austin Texas í Bandaríkjunum  árið 2014 og tók þar diplómu í hundaþjálfun og útskrifaðist sem hundaþjálfari og hegðunarsérfræðingur árið 2015. Ég starfaði við hundaþjálfun, námskeiðahald og einkatíma í nokkur ár þar til ég fór á vegum lögreglunnar á Íslandi í inntökupróf í nám á vegum Frontex sem er landamæragæsla Evrópusambandsins. Það nám var til kennsluréttinda í efnaleit lögregluhunda. Ég komst inn í það nám og var það einn besti skóli sem ég hef komist í. Útkallsréttindin í því námi eru í vinnslu en í nóvember kom til landsins nýr hundur, Hallbera, sem ætlaður er í það hlutverk.“

„Ég er núna eingöngu starfandi sem hundaþjálfari og rek ein Mósel ásamt því að vera einstæð móðir sem er líka full vinna. Löggan bíður betri tíma, ég ætla að sjá hvort að ég nái ekki þessum heimsmeistaratitli áður en ég skelli mér aftur í búninginn,“ segir Jóhanna glöð í bragði.

Jóhanna með Hallberu og Hanza. Ljósmynd/Jökull Ernir Steinarsson

Mismunandi hlutverk leitarhunda
„Ég var starfandi með leitarhunda hjá Landsbjörgu í mörg ár. Þar þjálfaði ég sjálf og tók þátt í þjálfun á mörgum hundum. Sá hundur sem ég var með á útkallslista í mörg ár hét Morris og var þjálfaður bæði í snjóflóðaleit og víðavangsleit. Í dag á ég hundinn Hanz sem er þjálfaður til að leita að myglu í húsum. Hann fór í próf á vegum þýsku umhverfissamtakana og hefur útkallsréttindi á þeirra vegum til að leita í húsnæði að leyndri myglu. Svo eins og fyrr segir er Hallbera, nýjasta viðbótin að hefja sína grunnþjálfun í leit þessa dagana,“ segir Jóhanna.

Jóhanna segist eiga sjálf einhversstaðar á milli fimm til tíu hunda. „Ég á líka hross sem eru ekkert annað en gæludýr og svo geit og sauð sem flokkast líka til fyrrgreinds flokks. Kettirnir Sólveig og Malik eru svo húsráðendur heima hjá mér og myndu sennilega sjálf ekki flokka sig sem gæludýr.“

Mikil gróska í hundaþjálfun á Íslandi
„Næst á dagskrá er að byrja aftur með diplómanám í hundaþjálfun hér á Íslandi. Með því fer annar hópurinn af stað á vegum Allirhundar, en í fyrra útskrifuðust nokkrir einstaklingar með diplómu í hundaþjálfun á mínum vegum. Sá hópur var alveg frábær og ofsalega gaman að kenna áhugasömu fólki um það hvernig hundar læra og byggja enn frekar undir nýliðun í greininni á Íslandi.“

„Breytt snið verður þó á náminu í ár þar sem það verður tvískipt. Annars vegar verður hægt að læra grunninn í hundaþjálfun, og ef fólk vill og treystir sér til að halda áfram lengur er lögð áhersla á þjónustuhundaþjálfun. Það nám er lengra og töluvert meiri kröfur í bóklegum og verklegum prófum en ég er full af bjartsýni yfir því að þarna úti leynist efnilegir hundaþjálfarar framtíðarinnar sem vilja leggja starfið fyrir sig. Þörfin fyrir þjónustuhunda er alltaf að aukast á Íslandi. Þeir hafa margsannað gagn sitt og mun greinin bara sækja í sig veðrið,“ segir Jóhanna að lokum.

Fyrir áhugasama hundaeigendur er vert að nefna að Jóhanna verður með fyrirlestur á netinu þann 18. febrúar næstkomandi. Á fyrirlestrinum fræðir Jóhanna fólk um hvernig best er að byggja upp traust á milli hunds og eiganda og færni hjá hundinum til að takast á við þau verkefni sem fyrir hann eru lögð. Slóðina á viðburðinn má finna hér.

Fyrri greinGummi Sig rífur hús í Hveragerði
Næsta greinÞórsarar áfram á siglingu