Mikilvægt að Ölfusingar sýni gestum vinskap

Fyrsta skemmtiferðaskipið sem leggst að bryggju í Þorlákshöfn kemur í bæinn í fyrramálið, fimmtudaginn 14. júní kl. 11:30.

Í tilkynningu á heimasíðu Ölfuss kemur fram að mikil vinna hafi farið í það að fá skemmtiferðaskip til að leggja að í Þorlákshöfn.

Skipið sem búið var að bóka í sumar breytti sínum áætlunum og afbókaði en seint í gær var ljóst að skipið Ocean Diamond þurfti að breyta sínum ferðaáætlunum og mun því leggja að í Þorlákshöfn.

Þar sem um er að ræða fyrsta skipið þá eru íbúar hvattir til að kíkja niður á höfn um kl. 11:30 og taka vel á móti gestunum. Í skipinu eru um 200 farþegar og um 100 manns í áhöfn. Flestir farþegar fara í ferð en einhverjir verða kyrrir í bænum og áhöfnin fer ekkert.

„Það er því mikilvægt að farþegar upplifi að þeir séu velkomnir og að íbúar sýni gestum vinskap og jafnvel spjalli við þá sem þeir rekast á,“ segir í tilkynningunni frá sveitarfélaginu.

Fyrri greinVonast til að Sunnlendingar fjölmenni á mótið
Næsta grein„Glaðir að fá 3 stig á erfiðum útivelli“