Mikilvægt að skoða lagnir reglulega

Á sumrin eykst gasnotkun til muna. Í húsbílum og hjólhýsum er það mikið notað bæði til upphitunar og eldamennsku.

Í frétt á heimasíðu VÍS segir að í ökutækjaskrá séu 3.600 hjólhýsi skráð og 2.600 húsbílar. Hvort tveggja eru vel þétt þannig að bæði súrefnisskortur og gasleki getur haft mjög alvarlegar afleiðingar. Huga þarf því vel að loftristum, lögnum, samskeytum, gasskynjara, kolsýrlingsskynjara og eldvörnum.

Í vor kviknaði í hjólhýsi í Þjórsárdal sem brann til grunna og voru eldsupptök í gasofni. Í fyrra létust þrír á sama stað í tveimur slysum. Annað slysið varð vegna súrefnisskorts út frá gasnotkun er kolsýrlingur hlóðst upp í andrúmsloftinu. Í hinu slysinu lést kona er kviknaði í hjólhýsi út frá gasleka sem var við ísskáp. Árin 2001 og 2008 létust sex einstaklingar vegna súrefnisskorts, er gas var notað í loftþéttu rými.

Á ferð hristast og hreyfast öll samskeyti og lagnir sem eykur lýkur á að eitthvað gangi til. Mikilvægt er því að skoða lagnir og tengingar nokkrum sinnum yfir sumarið en ekki bara í upphafi þess. Líftími búnaðar er ekki ótakmarkaður og til að mynda þarf að skipta slöngum út á fimm ára fresti.

Lofttúður niður við gólf eru sérstaklega hugsaðar til að hleypa gasi út ef það lekur og þurfa alltaf að vera opnar. Gas er þyngra en andrúmsloft og því eiga gasskynjarar að vera niður við gólf. Kolsýrlingur leitar aftur á móti upp og slíkur skynjari þarf því að vera staðsettur í lofti. Þar eiga einnig að vera opnar lofttúður.