Mikill viðbúnaður vegna bílveltu

Maður um fimmtugt slapp lítið meiddur þegar hann missti jeppling sinn út af Þrengslavegi við Raufarhólshelli kl. 5 í morgun.

Bíllinn hafnaði á hvolfi og þurfti að beita klippum til að ná manninum út. Slökkviliðsmenn úr Hveragerði klipptu manninn út úr bifreiðinni en einnig voru kallaðir út tækjabílar frá slökkviliðinu á Selfossi og af höfuðborgarsvæðinu auk slökkvibíls frá Þorlákshöfn.

Maðurinn reyndist lítið slasaður. Hann kvartaði undan eymslum í baki og var meiddur á fótum. Farið var með hann með sjúkrabíl á slysadeild Landspítalans.