Mikill samtakamáttur við ströndina

Esther Helga afhendir Gísla bæjarstjóra undirskriftarlistana. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Aðgerðarhópur um skólamál á Eyrarbakka afhenti bæjaryfirvöldum í Árborg í gær undirskriftarlista þar sem hvatt er til þess að byggja upp bráðabirgðahúsnæði og framtíðarhúsnæði BES á Eyrarbakka, auk þess að klára skólahúsnæði á Stokkseyri.

Eins og sunnlenska.is hefur greint frá var húsnæði Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri á Eyrarbakka lokað vegna myglu fyrr í vetur og nokkrum vikum síðar var gamla skólahúsinu á Stokkseyri lokað af sömu ástæðum.

Frá fyrsta degi hafa íbúar við ströndina komið á framfæri skýrum vilja sínum um að fundinn yrði lausn á húsnæðisvandanum í báðum þorpunum, sem allra fyrst.

Esther Helga Guðmundsdóttir afhenti Gísla Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, alls 432 undirskriftir í gær, sem koma til viðbótar þeim 160 nöfnum sem áður höfðu birt mótmæli sín opinberlega. Esther sagði að þessi fjöldi undirskrifta undirstrikaði þann mikla samtakamátt sem risið hefur í samfélaginu við ströndina vegna myglumálsins.

Bæjarstjórn Árborgar ákvað á síðasta fundi sínum að bjóða út byggingu færanlegra kennslustofa sem taka á í notkun á Eyrarbakka næsta vetur og munu þær brúa bilið þangað til endanleg ákvörðun verður tekin um uppbyggingu barnaskólans.

Eftir að Gísli bæjarstjóri tók við undirskriftalistunum sagði hann að miðað við þá vinnu sem farið var í í Stekkjaskóla á Selfossi sé meira en vel gerlegt að byggja nýtt skólahúsnæði á Eyrarbakka innan fimm ára.

„Vonandi verður það styttri tími en það er ljóst á útboðinu sem farið var í [á færanlegu kennslustofunum] að bæjarfulltrúar hafa verið að hlusta, enda hafa raddirnar verið mjög háværar hér á Stokkseyri og Eyrarbakka, og bæjarfulltrúar vilja sem fyrsta skref leysa þennan bráðabirgðavanda með lausn á Eyrarbakka. Enn hefur ekki verið tekin varanleg ákvörðun um framtíðarlausn en það yrði þá vinna nýrrar bæjarstjórnar að leiða,“ sagði Gísli Halldór og virtust viðstaddir nokkuð ánægðir með svör hans.

Esther Helga las upp áskorunina á undirskriftarlistanum og vitnaði í hin fleygu orð Jóns Sigurðssonar; „vér mótmælum allir“. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Svanhildur Pálín, sem er í 5. bekk, spurði bæjarstjórann hvort hún myndi fara í skóla á Eyrarbakka þegar hún færi í 7. bekk og hann taldi svo vera. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fjöldi fólks mætti til afhendingar undirskriftarlistanna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHamar og Selfoss mætast í bikarnum
Næsta greinGulur, rauður, grænn og blár