„Mikill munur að geta hringt inn í Skálholti“

Kranabóman er engin smásmíði og verkið gekk vel fyrir sig. Ljósmynd/Jón Bjarnason

Það var sögulegur dagur í Skálholti í dag þegar nýja danska kirkjuklukkan tók flugið með krana frá JÁVERK og sveif inn í turninn á dómkirkjunni.

Áður en að því kom var stærsta brotið úr gömlu klukkunni híft niður úr turninum en sú klukka féll niður og brotnaði við innhringingu á Skálholtshátíð árið 2002. Nú, tuttugu árum síðar, er ný klukka komin í turninn fyrir tilstilli Verndarsjóðs Skálholtsdómkirkju, og mun hún hljóma í fyrsta sinn síðar í þessum mánuði.

Miklar framkvæmdir standa nú yfir utanhúss á dómkirkjunni. Ljósmynd/Jón Bjarnason

„Þetta er stór dagur og frábær áfangi fyrir okkur. Þetta gekk mjög vel fyrir sig á þessum fallega degi,“ sagði Kristján Björnsson, vígslubiskup, í samtali við sunnlenska.is.

„Það var búið að rjúfa þekjuna á turninum og þetta smellpassaði alltsaman og var fagmannlega unnið. Þeir byrjuðu á því að hífa niður gömul rambolt og ýmislegt dót sem var þarna uppi ásamt brotnu klukkunni og þegar nýja klukkan var komin upp þá hífðu þeir einnig upp nýju steinflísarnar sem eiga að fara á þakið,“ sagði Kristján.

Nýja klukkan hlýtur upplyftingu. Ljósmynd/Jón Bjarnason

Allt tölvustýrt í dag
Fjórar klukkur eru fyrir í turninum og hafa verið smíðuð ný rambolt fyrir allar klukkurnar auk þess sem ein þeirra fær nýjan hamar. Vélsmiðjan Óðinn hefur smíðað nýjar járngrindur sem halda klukkuverkinu uppi og síðan verða raflagnir í turninum endurnýjaðar. Nýja klukkan er smíðuð í Danmörku og í næstu viku koma dönsku smiðirnir í Skálholt og sjá um að hífa klukkurnar upp á grindurnar og tengja alltsaman.

„Þetta er nánast allt tölvustýrt í dag, sem er ekki einsdæmi en verður mikil breyting fyrir Skálholt. Það verður sennilega ekki hringt inn fyrir helgi en klukkurnar munu vonandi hljóma eftir tvær til þrjár vikur. Þær fóru að gefa sig ein af annarri og í fyrra voru þær allar teknar niður. Það verður mikill munur að geta hringt inn í Skálholti. Síðan snemma í haust höfum við notast við eina klukku frá 12. öld sem er inni í kirkjunni, og hringdum meðal annars inn jólin með henni,“ bætir Kristján við.

Þekjan var rofin og allt smellpassaði. Ljósmynd/Jón Bjarnason

Enn hægt að styrkja kaupin
Sem fyrr segir er þetta verkefni fjármagnað af Verndarsjóði Skálholtsdómkirkju og segir Kristján að aðeins vanti uppá fjármögnunina og ennþá sé hægt að taka við fleiri styrkjum fyrir klukkukaupin.

Auk endurnýjunar á klukkunum hafa staðið yfir miklar framkvæmdir utanhúss á kirkjunni síðustu misserin. Kristján segir að sú vinna ætti að verða langt komin fyrir Skálholtshátíð sem haldin verður 16.-17. júlí næstkomandi og þá muni klukkurnar svo sannarlega hljóma í Skálholti.

Sr. Kristján Björnsson virðir fyrir sér gömlu dönsku klukkuna sem brotnaði fyrir tuttugu árum. Ljósmynd/Jón Bjarnason
Fyrri greinBlikarnir betri á heimavelli
Næsta greinÓskalögin óma áfram í Skálholti