Mikill léttir fyrir íbúa sýslunnar

Sveitarstjórnir Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps fagna því að þjóðvegur 1 við Múlakvísl er nú aftur opinn fyrir umferð.

Sveitarstjórnirnar vilja koma á framfæri miklu þakklæti til Vegagerðarinnar og starfsmanna hennar fyrir afar snör handtök við að koma á vegasambandi á ný.

„Lífæð sveitarfélaganna er þjóðvegur 1 og því mikill léttir fyrir þá sem búa og starfa í sýslunni að því óvissuástandi sem skapaðist við rof hringvegarins sé aflétt,“ segir í fréttatilkynningu sem sveitarfélögin sendu út í dag.

Jafnframt er komið á framfæri einlægu þakklæti til allra þeirra fjölmörgu björgunarsveitarmanna og annarra sem stóðu langar vaktir við að ferja fólk og farartæki yfir Múlakvísl við erfiðar aðstæður.

Fyrri greinBílarnir keyra yfir brúna
Næsta greinÁfram unnið á óvissustigi