Mikill erill í sjúkraflutningum

Sjúkraflutningamenn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands höfðu í nógu að snúast um helgina en alls voru þeir kallaðir út 29 sinnum frá föstudegi til sunnudags.

Að sögn Ármanns Höskuldssonar, yfirmanns sjúkraflutninga HSu, var í fimmtán útköllum um að ræða lífsógnandi tilfelli. Tólf sinnum var um að ræða bráð veikindi eða slys án lífsógnar og í tvígang þurfti að flytja sjúklinga á milli stofnana. Flest voru útköllin í Árnessýslu.

Meðal verkefna sem sjúkraflutningamenn voru boðaðir í voru hjartaáföll, heilablóðföll, meðvitundarleysi, öndunarerfiðleikar, bílveltur og slys.

Að sögn Ármanns hafði færð nokkur áhrif á störf sjúkraflutningamanna en mikil hálka er í íbúðargötum, og þæfingsfærð var á þjóðvegum.

Fyrri greinFélagar sýni samstöðu í þeirri orrahríð sem framundan er
Næsta greinÁsta vill leiða D-listann í Árborg