Mikill erill hjá Hvolsvallarlögreglu

Samtals voru 192 mál bókuð hjá lögreglunni á Hvolsvelli í liðinni viku en mikið var að gera hjá lögreglunni í tengslum við Bestu útihátíðina á Gaddstaðaflötum við Hellu.

Þar voru á milli 5-6 þúsund manns þegar fjölmennast var og er það nokkuð færra en á sömu hátíð í fyrra. Lögreglan hafði mikinn viðbúnað allan tímann, frá fimmtudagskvöldi til sunnudagskvölds.

Fíkniefnamál sem komu upp á hátíðinni urðu 55 samtals. Fíkniefnahundur var á svæðinu og ásamt öflugum lögreglumönnum. Lögreglan á Hvolsvelli segir sláandi hvað mikið af fíkniefnum virðist vera í umferð, mikið af ungu fólki að byrja í neyslu fíkniefna og voru margir að fá sitt fyrsta mál á sig.

Hátíðin fór að mestu vel fram og engar alvarlegar líkamsárásir hafa verið kærðar á hátíðinni. Töluvert var um að lögreglan þyrfti að ganga á milli manna og stilla til friðar. Má segja að öflug löggæsla og gæsla á svæðinu hafi hjálpað til að koma í veg fyrir að fleiri mál urðu ekki sem varðar líkamsárásir.

Skömmu fyrir miðnætti á föstudagskvöldinu varð alvarlegt vinnuslys á Gaddstaðaflötum er starfsmaður var að fylla á kút á paintball byssu. Sprenging varð og eldur kviknaði. Maðurinn brenndist illa og var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahús í Reykjavík þar sem hann er á gjörgæsludeild. Hann hlaut m.a. áverka í andliti, höndum og á fótum. Hann mun þó ekki vera talin í lífshættu. Vinnueftirlitið og rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi fer með rannsókn málsins.

Nauðgun var kærð á aðfaranótt laugardagsins á Gaddstaðaflötum. Málið er til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi. Þolandi var fluttur á neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb kynferðisbrota. Maður var handtekinn vegna þessa og yfirheyrður af lögreglu.

Á hátíðinni var mönnum boðið upp á að koma og blása í öndunarmæli til að kanna með hvort þeir væru hæfir til að hefja akstur og þá aðallega á sunnudeginum er gestir voru að fara af stað heim á leið. Margir voru það sem nýttu sér ekki þetta og voru stöðvaðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Alls voru 17 ökumenn teknir fyrir ölvun við akstur í tengslum við hátíðina. Þeir mega búast við ökuleyfissviptingu fyrir brot sín.

Í vikunni voru 48 ökumenn stöðvaðir fyrir að aka of hratt í umdæminu en sá sem hraðast fór var mældur á 127 km. hraða.

Nokkur umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni en ekkert alvarlegt slys varð í umferðinni þessa vikuna að því er fram kemur í dagbók Hvolsvallarlögreglu.