Mikill áhugi á rannsóknarskýrslunni

Starfsfólk Sunnlenska bókakaffisins á Selfossi hafði nóg að gera nú eftir hádegið þegar Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis kom í hús. Bóksalinn á von á mikilli sölu.

Bjarni Harðarson, bóksali, segir í samtali við sunnlenska.is að hann hafi fyrirfram orðið var við mikinn áhuga á skýrslunni. „Fólk er strax farið að hringja og spyrjast fyrir um hana. Það fóru nokkur eintök í forsölu hjá okkur og núna á þessum örfáu mínútum frá því að skýrslan kom í hús er ég búinn að selja tvö. Við fengum fimmtán eintök og ég hef lagt inn pöntun fyrir fimmtíu í viðbót,“ segir Bjarni.

Skýrslan kostar 6000 krónur og er í níu bindum í A4 broti. „Það má segja að kílóverðið sé lægra heldur en almennt gerist. Menn eru að fá mikið fyrir peninginn,“ segir Bjarni sem sjálfur er byrjaður að glugga í skýrsluna.

„Efni skýrslunnar er ótrúlega aðgengilegt vegna efnisyfirlita og uppsetningar. Það er auðvelt að leita að köflum sem vekja meiri áhuga en aðrir, t.d. um sjóð 9. Reyndar vantar í hana nafnaskrá sem er nokkur ókostur,“ segir Bjarni.

Aftast í skýrslunni má þó sjá nafnaskrá yfir þá sem kallaðir voru fyrir rannsóknarnefndina og þar af eru þrír sunnlenskir bændur; Finnur í Vesturkoti, Björgvin í Skarði og Guðni frá Brúnastöðum.

Fyrri greinHandtekinn með hliðarspegil
Næsta greinBjörgvin segir af sér formennsku