Mikill áhugi á LandArt verkefni

Um tuttugu listamenn frá sex þjóðlöndum hafa skráð sig til leiks í LandArt verkefni sem mun verða hluti af dagskrá Garðyrkju- og blómasýningarinnar Blóm í bæ sem haldin verður í Hveragerði síðustu helgina í júní.

Mikill áhugi er fyrir verkefninu en þátttakendur koma frá Danmörku, Hollandi, Noregi, Póllandi, Finnlandi og Belgíu en einnig ætlar fjöldi íslenskra blómaskreyta að taka þátt í þessari spennandi nýjung.

Í LandArt er unnið með landslag og listaverk af ýmsum stærðum og gerðum sem unnin eru úti í náttúrunni. Notuð eru náttúruleg efni eingöngu en unnið er til dæmis með grjót, möl, jarðveg, tré, plöntur og vatn. Listaverkin eru sköpuð í og með náttúrunni á stöðum þar sem þau geta síðan þróast og lifað eða horfið í takt við umhverfi sitt.

Annar eins fjöldi af íslenskum blómaskreytum hefur einnig boðað komu sína til bæjarins til þess að skreyta bæinn með fjölbreytilegum hætti fyrir sýninguna, en þema hennar þetta árið er regnboginn. Gestir geta einnig notið árstíðatengdra skreytinga eins og jóla-, páska-, haust- og sumarskreytinga og einnig verður efnt til sýningar á útfarar- og brúðarskreytingum.

Í tilkynningu segir að fjöldi einstaklinga og fyrirtækja geri sýningu sem Blóm í bæ mögulega og meðal annars gefa hótel og gististaðir í og við Hveragerði gistingu og morgunmat fyrir alla þátttakendur í skreytingaverkefnum þessa árs.