Mikill áhugi á Hamarshöllinni

Tuttugu og sex fyrirtæki hafa sótt útboðsgögn vegna Hamarshallarinnar í Hveragerði en tilboð í undirstöður og jarðvegsvinnu verða opnuð 12. janúar.

Útboðið er opið en um er að ræða loftborna fjölnota íþróttahöll á íþróttasvæði norðan Hamarsins í Hveragerði. Heildarstærð hússins er u.þ.b. 5.000m². Steyptir sökklar eru umhverfis bygginguna, þar sem tvöfaldur dúkur mun verða festur á þegar húsið verður reist. Þá er byggt aðstöðuhús innandyra með aðstöðu og salernum. Utanhúss verður byggt stakt inntakshús.

Útboðið snýr að jarðvinnu, uppsteypu sökkla og botnplötu, innanhússfrágangi, lögnum, raflögnum og frágangi lóðar. Aðrir verktakar en þetta útboð snýr að munu einnig koma að framkvæmdinni, t.d. framleiðendur hallarinnar, Duol, sem munu reisa yfirbygginguna.

Jafnframt verktakar sem munu leggja gervigras inní höllina áður en hún verður reist og verktakar sem munu setja íþróttagólf í þann þriðjung þar sem fjölnotavöllur verður.

Jarðvegsskipti hafa nú þegar átt sér stað á byggingareitnum, en þó er innifalið í verkinu að grafa fyrir sökklum, lögnum, o.fl.

Fyrri greinÁrborg héraðsmeistari í handbolta
Næsta greinHveragerði semur aftur við GHG