„Mikil vonbrigði“

„Fyrstu tölur eru mikil vonbrigði fyrir Samfylkinguna og þetta er mun lakari útkoma en maður hefði reiknað með,“ sagði Björgvin G. Sigurðsson, sem er á leið út af þingi miðað við fyrstu tölur.

„Þetta er jafnvel verra heldur en kannanir sýndu. Við töldum okkur finna fyrir uppsveiflu þessa síðustu viku en hún hefur samkvæmt þessum fyrstu tölum ekki skilað sér. Auðvitað getur þetta breyst eitthvað þegar líður á nóttina með jöfnunarsætum og slíku – þetta er ekki búið fyrr en það er búið en auðvitað er þetta alveg sérstaklega lök útkoma,“ sagði Björgvin í samtali við sunnlenska.is.

Björgvin segir að kosningabaráttan í Suðurkjördæmi hafi farið frekar vel fram. „Hún var frekar róleg og málefnaleg það sem ég varð var við. Maður varð kannski var við áhugaleysi og að margir sem hafa kosið til vinstri hafi ákveðið að skila auðu eða ekki skilað sér á kjörstað. Við áttum greinilega erfitt með að ná okkar kjarna til þess að kjósa okkur aftur,“ segir Björgvin og bætir við að það sé erfitt að benda á eitthvað eitt sem skýri þessa stöðu flokksins.

„Það er óánægja með stöðu mála. Ríkisstjórnin tapaði einhvernveginn vopnum sínum seinni hlutann á kjörtímabilinu. Skýringarar á því eru ábyggilega margar, vondur vetur, snautleg þinglok og margt sem fór úrskeiðis í vetur. Ríkisstjórnin tapaði stöðunni og náði henni ekki aftur þegar leið á veturinn,“ sagði Björgvin að lokum.

Fyrri grein„Nóttin getur orðið löng“
Næsta greinVilja leikskólann áfram á Þingborg