Mikil umferð og stóráfallalaus

Mikil umferð var í Árnessýslu um páskahelgina og margt fólk á ferð í frístundahúsum og í orlofshúsum. Að sögn lögreglu gekk umferðin að heita má áfallalaust.

Tilkynnt var um þrjár bílveltur um helgina. Sú fyrsta átti sér stað á föstudaginn langa við Hrafnkelsstaði í Hrunamannahreppi þar sem bifreið með tveimur mönnum í lenti ofan í skurði. Ökumaður og farþegi sluppu nánast ómeidd.

Önnur varð á Biskupstungnabraut skammt frá Mosfelli. Ökumaður fólksbifreiðar missti stjórn á bifreið sinni í beygju með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar. Einn farþegi var með ökumanni í bifreiðinni og sluppu þau án teljandi meiðsla.

Um kl. 4:30 í gærmorgun barst síðan tilkynning um bílveltu Hrunamanna- og Skeiðavegi við Gunnbjarnarholt. Fjórir voru í bílnum og minni háttar meiðsl. Ökumaður mun hafa sofnað og misst stjórn á bílnum.

Í öllum þessum óhöppum voru allir með bílbelti spennt. Lögreglan segir enga spurning vera um að þau hafi gert sitt gagn og komið í veg fyrir alvarlega áverka.

Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að ökumenn séu aðeins farnir að “gefa í”. Í síðustu viku voru 27 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur. Allir ökumenn sem lögreglumenn höfðu afskipti um páskahelgina voru edrú. Það eru góðar fréttir, segir í dagbókinni.

Fyrri greinJörð skalf víða í síðustu viku
Næsta greinTvö slys í Grímsnesinu um páskana