Mikil umferð og flestir til fyrirmyndar

Í umdæmi lögreglunnar á Selfossi var mikil umferð um helgina og margt fólk á ferðinni. Ökumenn voru til fyrirmyndar eins og alltaf þó einum og einum verði eitthvað á.

Í dagbók lögreglunnar segir að þannig hafi tíu ökumenn verið teknir fyrir of hraðann akstur og einn var kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Nú standa yfir vegaframkvædir á Suðurlandsvegi í Kömbum og í Hveradölum. Á þeim vegaköflum hefur hámarkshraði verið lækkaður úr 90 km í 70 km. Lögreglan beinir því til ökumanna að virða hámarkshraðann á þessum stöðum og sýna verktökum tillitssemi eins og þeir hafa gert gagnvart vegfarendum með því að gera strangar kröfur til sjálfs sín varðandi öryggi vegna framkvæmdanna.

Síðdegis síðastliðinn fimmtudag varð bifhjólaslys á Þingvallavegi við Vatnsvík. Ökumaður bifhjóls lenti útfyrir veg eftir að hann fipaðist við það að mæta bifreið á mjóum veginum. Bifhjólamaðurinn slasaðist á fingri og var fluttur á slysadeild Landspítala til aðhlynningar. Bifhjólið skemmdist talsvert.

Fyrri greinGaul og Stockton í Selfoss
Næsta greinBrotist inn í Pizzafabrikkuna