„Mikil þörf á því að konur á Suðurlandi hafi aðgang að úrræði sem þessu“

Hildur Jónsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Þann 22. mars næstkomandi verða Sigurhæðir, þjónusta við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi, opnaðar að Skólavöllum 1 á Selfossi.

Það er Soroptimistaklúbbur Suðurlands sem er frumkvöðull að verkefninu en samstarfsaðilar eru sveitarfélögin á Suðurlandi, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, lögreglan, Kvennaráðgjöfin, Mannréttindaskrifstofa Íslands og fleiri.

„Soroptimistar á Suðurlandi höfðu um nokkra hríð rætt hvernig klúbburinn gæti betur ræktað það hlutverk sitt að starfa í þágu kvenna, í þágu jafnréttis og leggja heimabyggð lið á einhverju því sviði þar sem þörfin væri sem brýnust. Á stjórnarfundi klúbbsins 19. maí fyrir tæpu ári létum við gamminn geysa og leyfðum okkur að fljúga hærra en við áður höfðum gert,“ segir Hildur Jónsdóttir, verkefnastjóri og meðlimur Soroptimistaklúbbs Suðurlands, í samtali við sunnlenska.is.

Gæta að réttindum kvenna
Í Soroptimistaklúbbi Suðurlands eru 25 konur. „Klúbburinn er eigandi verkefnisins Sigurhæða og hluti af Landssambandi Soroptimista á Íslandi. Meðal helstu markmiða Soroptimista á Selfossi, sem og annars staðar, er að vinna að bættri stöðu kvenna, jafnrétti, framförum og friði og gera það með því að veita þjónustu í heimabyggð, heimalandi og á alþjóðavettvangi.

Sigurhæðir er úrræði fyrir konur, 18 ára og eldri sem eru að vinna sig frá áhrifum kynbundins ofbeldis af hvaða tegund sem er. Úrræðið er ekki hugsað fyrir karla sem eru þolendur, við höfum ekki sérfræðiþekkingu til að taka á móti þeim, a.m.k. ekki fyrst um sinn, en við getum greitt þeim leið að komast fljótt inn í önnur úrræði sem eru ætluð þessum hópi,“ segir Hildur.

Soroptimistasystur á tröppum Sýslumannshússins á Selfossi 25. nóvember 2019 í tilefni af átakinu Roðagyllum heiminn, sem er framlag Soroptimista á heimsvísu til árlegs sextán daga átaks gegn ofbeldi. Ljósmynd/Aðsend

Mikil þörf á úrræði sem þessu á Suðurlandi
„Flestar okkar þekkja vel til Suðurlandsins og eru Sunnlendingar fram í fingurgóma. Við urðum allar sammála um að úrræði fyrir þolendur kynbundins ofbeldis vantaði tilfinnanlega í landshlutann, því þær konur sem hafa þurft á slíkri þjónustu að halda hafa ekki átt neinn kost annan en að sækja þjónustu til Reykjavíkur fram að þessu og við töldum okkur vita að sú staðreynd hindraði margar konur í að leita sér aðstoðar,“ segir Hildur.

„Við einsettum okkur strax að líta til Bjarkarhlíðar í Reykjavík sem fyrirmyndar að því samstarfsmódeli sem við vildum stefna að. Sigurhæðir er því tvíþætt, í fyrsta lagi er það samstarfs- og samhæfingarvettvangur þeirra sem koma að málum tengdum ofbeldi hér á Suðurlandi og í öðru lagi er það meðferðarúrræði. Við leituðum strax til Árborgar, til félagsþjónustunnar í Árborg, og viðtökurnar voru svo frábærar að við sannfærðumst enn frekar um að mikil þörf væri á úrræði sem þessu. Það var í rauninni niðurstaða sem fjöldamargir fagaðilar hér í landshlutanum höfðu þegar komist að.“

„Í kjölfarið tókum við samtalið við félagsþjónustur allra annarra sveitarfélaga á Suðurlandi með þeim árangri að öll sunnlensk sveitarfélög standa að baki Sigurhæðum. Lögreglan á Suðurlandi og Heilbrigðisstofnun Suðurlands eru líka meðal samstarfsaðila, eins og Kvennaráðgjöfin sem veitir lögfræðilega ráðgjöf og Mannréttindaskrifstofa Íslands sem ætlar að aðstoða okkur þegar innflytjendur eiga í hlut. Við eigum líka samstarf við Markþjálfafélag Íslands, sem mun aðstoða okkar skjólstæðinga við markmiðasetningu í námi og starfi. Svo get ég nefnt fjöldamarga aðra sem við eigum samstarf við og eru starfandi á þessu sviði, svo sem Stígamót, Drekaslóð, Rótina og Kvennaathvarfið,“ segir Hildur.

Erlendir ríkisborgarar oft vankunnandi um réttindi sín
„Í Sigurhæðum verður veittur stuðningur og ráðgjöf í gegnum einkaviðtöl við okkar meðferðaraðila, hópameðferð og einnig sérhæfð áfallameðferð, sem kallast EMDR meðferð, í þeim tilvikum að hún telst nauðsynleg. Að auki geta skjólstæðingar fengið viðtal við lögreglu hjá okkur til að leita ráða og upplýsinga um hvernig það ferli er að kæra mál og einnig er lögfræðileg ráðgjöf í boði. Réttindafræðsla fyrir til dæmis erlenda ríkisborgara er líka veitt, en þessi hópur er oft mjög vankunnandi um réttindi sín og getur það verið notað gegn manneskjunni.“

„Heilbrigðisstofnun Suðurlands er þegar með skjólstæðingahóp þar sem ofbeldi getur verið þáttur af vandanum, og þá getum við komið inn. Þannig að skjólstæðingar okkar geta fengið margþætta og heildræna þjónustu, allt eftir óskum og þörfum hverrar og einnar,“ segir Hildur.

Soroptimistasystur fyrir framan Landsbankann á Selfossi sem lýsti upp Landsbankahúsið í roðagylltum lit í tilefni 16. daga átaksins árið 2020. Hjá Soroptimistum er roðagyllti liturinn tákn baráttunnar gegn kynbundu ofbeldi. Ljósmynd/Aðsend

Konur verða sigurvegarar
Aðspurð hvaðan nafnið, Sigurhæðir, sé komið segir Hildur að það hafi komið til þeirra alveg í blábyrjun undirbúningsins. „Eftir að nafninu hafði verið fleytt þá festist það og það kom ekkert annað til greina. Flestir þekkja Sigurhæðir sem var hús Matthíasar Jochumsonar, prests og sálmaskálds á Akureyri. Við vildum tengja nafnið þeirri gríðarlegu sigurtilfinningu sem konur gjarnan upplifa þegar þær fara að vinna sig frá áhrifum ofbeldis, þær verða sigurvegarar, þær losna úr fjötrum. Við prófuðum að senda góðar hugsanir til Matthíasar sem er þarna einhvers staðar í kosmosinu og fengum ekkert nema góða strauma til baka. Sömu góðu strauma fengum við þegar við leituðum til Akureyrarbæjar, sem á húsið, eftir leyfi til að nota nafnið. Já, andi Matthíasar mun veita okkur innblástur í starfinu.“

Samvinnuverkefni fjölda fólks
Sem fyrr segir verða Sigurhæðir til húsa að Skólavöllum 1 á Selfossi. „Við munum, allavega fyrst um sinn hafa aðsetur í húsnæði virknimiðstöðvarinnar Stróks. Starfsemi Stróks verður þarna áfram fram eftir degi, en við höfum húsnæðið alla föstudaga og eftir kl. 15 aðra daga. Okkur þykir gott að koma þarna inn, þarna er allt til alls, listasmiðja, viðtalsherbergi og fleira og þetta lækkar okkar stofnkostnað svo um munar.“

Fjölmargt starfsfólk kemur að Sigurhæðum. „Við erum búnar að ráða til okkar tvo meðferðaraðila, Elísabetu Lorange. listmeðferðarfræðing sem teymisstjóra og Jóhönnu Kristínu Jónsdóttur. sálfræðing, sem er sérmenntuð í áfallameðferð. Þriðji meðferðaraðilinn er við dyrnar, við höldum að við þurfum á henni að halda mjög fljótlega. Svo koma til okkar auðvitað fulltrúar frá þeim samstarfsaðilum sem þegar hafa verið nefndir og loks erum við með sjálfboðaliða úr röðum Soroptimistaklúbbs Suðurlands sem munu manna móttöku og síma,“ segir Hildur.

Ofbeldisbrot gagnvart konum yfir meðallagi á Suðurlandi
„Við fengum Ívar Karl Bjarnason, sérfræðing í jafnréttisfræðum, til að greina tölfræðiupplýsingar um mál hjá lögreglu, dómstólum og hjá samtökum eins og Stígamótum og Kvennaathvarfi með tilliti til þess hvaða upplýsingar væri hægt að draga fram úr þeim um stöðu þessara mála á Suðurlandi. Niðurstaðan var að fjöldi kynferðisbrota sem kærð eru til lögreglu hér liggur aðeins hærra en landsmeðaltalið, einnig að teknu tilliti til útihátíða í fjórðungnum. Aðrar tölur benda líka til þess að fjöldi ofbeldisbrota gagnvart konum sé yfir meðallagi hér á Suðurlandi.“

„Við höfðum búist við því að Suðurland væri hvorki betra né verra en aðrir landshlutar hvað kynbundið ofbeldi varðar, því við vitum að kynbundið ofbeldi spyr ekki um stað, stétt eða stöðu. Þannig að á grunni staðreynda getum við sagt að það sé mikil þörf á því að konur á Suðurlandi hafi aðgang að úrræði sem þessu, alveg eins og konur annars staðar á landinu. Hvernig má annað vera, þegar við vitum að allt að 40% kvenna hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi í einhverri mynd eftir 16 ára aldur?“ spyr Hildur.

Skólavellir 1 á Selfossi.

Gríðarlega góðar viðtökur við verkefninu
„Viðtökurnar hafa verið lyginni líkastar. Undantekningalaust hefur okkur verið tekið fagnandi, með orðunum loksins, loksins og það er kominn tími til. Sérstaklega fagaðilarnir sem þekkja sitt samfélag ofan í grunninn. Allir úr þessum geira, eins og önnur samtök sem þjónusta þennan hóp, hafa opnað faðminn og boðið okkur samstarf og alla þá aðstoð sem við gætum þurft á að halda.“

Hildur segir að þau hafi víða leitað eftir fjármögnun. „Við höfum fengið styrki frá ráðuneytum, sjóðum, sveitarfélögum, Soroptimistahreyfingunni á Íslandi og nokkrum einstaklingum með þeim árangri að við erum búnar að fjármagna 2/3 af kostnaðaráætlun fyrsta ársins. Betur má ef duga skal og það er eitt af mínum mikilvægustu hlutverkum sem verkefnisstjóra að halda áfram að leita eftir styrkjum. Öll þjónusta í Sigurhæðum er endurgjaldslaus, en er okkur auðvitað ekki ódýr.“

Fyllsta trúnaðar heitið
„Ég vil taka fram að allir sem koma að starfsemi Sigurhæða undirrita þagnarheit, sem gildir líka eftir að látið er af störfum hjá okkur. Þetta er mikilvægt. Eins það að þjónustan er veitt á forsendum skjólstæðinganna sjálfra, þær munu ráða ferðinni. Heimasíðan okkar, sigurhaedir.is fer í loftið á næstu dögum og við hefjum móttöku skjólstæðinga mánudaginn 22. mars. Síminn hjá okkur verður 834 55 66. Og þótt þessi málaflokkur sé uppfullur af sorg og ljótleika, þá erum við boðberar vonar og ætlum að ganga hönd í hönd með okkar skjólstæðingum upp Sigurhæðir,“ segir Hildur að lokum.

Fyrri greinHlaðbær-Colas bauð lægst í Laugarvatnsveg
Næsta greinHamar-Þór upp í 4. sætið