Mikil skjálftavirkni í Kötlu

Jarðskjálfti af stærð 3,1 varð kl 4:40 og annar af stærð 3,7 varð kl 4:41 í Kötluöskjunni. Stærri skjálftinn fannst í Þórsmörk og fylgdu honum nokkrir eftirskjálftar.

Um 200 jarðskjálftar hafa mælst síðasta sólarhringinn í Kötlu. Aðrir skjálftar yfir 3 stigum hafa mælst í hrinunni, 3,2 að stærð í nótt kl 2:43 og 3,0 að stærð kl 16:28 í gær.

Þetta er hæsta daglega tíðni á skjálftum við Kötlu þetta árið og í raun síðan árið 2011.

Allir skjálftarnir eru mjög grunnir. Skjálftavirknin er rétt sunnan við miðja Kötlu öskjuna um 1,5 km norður af katli 16.

Rennsli í Múlakvísl hefur farið minnkandi síðan á þriðjudag og er rafleiðnin frekar há miðað við árstíma.

Flogið var yfir jökulinn síðastliðinn þriðjudag og sáust engar verulegar breytingar á yfirborði jökulsins. GPS mælingar sýna engar breytingar.

Fyrri greinÍsólfsskáli friðlýstur
Næsta greinÓskar ráðinn þjálfari Árborgar