Sveitarstjórn Flóahrepps er mjög óánægð með skerðingu á þjónustu Íslandspóst sem tók gildi 1. mars. Póstdreifingardögum hefur verið fækkað úr fimm í tvo aðra vikuna og fimm í þrjá hina vikuna.
„Þetta er skerðing á þeirri þjónustu sem verið hefur í gangi undanfarin ár og íbúar og atvinnurekendur á svæðinu treystu á. Ef senda á dreifibréf til allra íbúa með mikilvægum upplýsingum, þá er heldur ekki hægt að treysta því að allir í svæðinu fái upplýsingarnar á sama tíma, því búið er að svæðisskipta sveitarfélaginu. Þetta kemur nánast í veg fyrir að hægt sé að líta á dreifpóstinn lengur sem tæki til þess að miðla opinberum upplýsingum því allir eiga jú sama rétt á sömu upplýsingum á sama tíma ef vel á að vera,“ segir Eydís Indriðadóttir, sveitarstjóri Flóahrepps, í samtali við Sunnlenska.
Eydís segir að vissulega hafi það magn minnkað sem sent er með landpóstinum með tilkomu netvæðingar á undanförnum árum og skilaboð einnig mikið send símleiðis.
„Aukning hefur orðið á móti í netviðskiptum þar sem vara er pöntuð á netinu og síðan send með póstinum. Á það bæði við um vörur til einkanota og til rekstrar. Ein af forsendum þess að reka fyrirtæki á sama grunni í þéttbýli og í dreifbýli er að hafa afhendingartíma á vörum hvort sem er aðföng eða fullbúna vöru, eins stuttan og mögulegt er. Að halda samfélagi gangandi veltur á eilífri hringrás þar sem hver treystir á annan og allir eru jafn mikilvægir hlekkir í keðjunni,“ segir sveitarstjóri Flóahrepps.