„Mikil heilsumenning í Árborg“

„Það er mikil heilsumenning í Árborg og fannst okkur hjónunum vanta eitthvað sem styrkir það. Sérstaklega eftir að Intersport hætti,“ segir Linda Rós Jóhannesdóttir, eigandi verslunarinnar Stúdíó Sport á Selfossi.

Linda opnaði verslunina ásamt eiginmanni sínum, Gylfa Birgi Sigurjónssyni, í desember síðastliðnum. Stúdíó Sport er til húsa að Austurvegi 11 og sérhæfir sig í alls konar fatnaði og fylgihlutum sem tengjast íþróttum.

„Móttökurnar hafa verið mjög góðar og við erum mjög ánægð með hvernig þetta fer af stað. Auðvitað tekur þetta allt saman tíma en við erum mjög spennt fyrir nýju ári, enda nóg um að vera hjá okkur,“ segir Linda en hún sér um allan daglegan rekstur á meðan Gylfi starfar sem íþróttakennari í Vallaskóla.

„Við bjóðum upp á íþróttafatnað, íþróttavörur eins og teygjur, rúllur og slíkt og svo erum við með þekktar bætiefnavörur eins og Atkins stangirnar. Þetta er byrjunin og svo munum við svara eftirspurn,“ segir Linda.

Hún segir að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi í versluninni. „Við einblínum mikið á fólk sem stundar einhvers konar hreyfingu. Við munum svo bæta við töluverðu af barnavörum árið 2018 og sérhæfa okkur í sem flestum íþróttum. Okkur langar að þakka fyrir þær frábæru móttökur sem heimafólk hefur sýnt okkur.“

Fyrri greinNýrri bók fagnað í MÍR salnum
Næsta greinJón Daði funheitur í bikarnum