Mikil hálka á Suðurlandi

Umferðin á Suðurlandi hefur gengið að mestu áfallalaust í dag þrátt fyrir mikla hálku. Þó varð eitt óhapp í Þorlákshöfn.

Við innkeyrsluna í bæinn, milli hringtorgsins og umferðarljósanna, er S-beygja þar sem ökumenn lenda iðulega í vanda í hálku.

Sú var raunin í þetta sinn, ökumaður missti bíl sinn út af veginum og valt eina veltu. Hann gat þó haldið ferð sinni áfram eftir óhappið. Lögregla var kölluð á staðinn en aðstoð sjúkraflutningamanna var afþökkuð.