Mikil hætta á ferðum við Markarfljót

Lönd, mannvirki og búsmali austan og norðan Markarfljóts er í mikilli hættu vegna mögulegs landbrots frá fljótinu. Sveitarstjórn Rangárþings eystra vill að Landgræðslan og Vegagerðin hefjist þegar í stað handa við gerð áætlana og hönnunar á varnar- og leiðigörðum við Markarfljót austanvert allt frá eldri garði og allt niður í fjöru.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar var samþykkt tillaga þessa efnis frá Guðmundi Ólafssyni, fulltrúa Vg.

Í greinargerð með tillögunni segir að nú sé svo komið að Markarfljót hafi brotið fjörukambinn niður á rúmlega eins kílómetra svæði til austurs frá enda 600 metra langs leiðigarðs, sem byggður var fyrir 3 árum síðan til að varna sandburði í Landeyjahöfn.

„Við þetta fór fljótið að sækja til austurs og hefur ós fljótsins færst á annan km og ekki fyrirséð hvar það muni enda. Eins er það farið að slá sér til austurs allt frá enda garðsins ofan við gljána og gerist það oftar að lænur úr fljótinu renna austur gljá eða þá við fjöru alla leið í Holtsós. Jafnhliða þessu þá hleður það mikið undir sig sérstaklega innan við leiðigarðinn og gætir þess æ ofar í farveginum sem eykur enn á vandann sem fyrir er,“ segir í greinargerðinni.

Guðmundur segir augljóst að þarna sé mikil hætta á ferðum og skjótra viðbragða sé þörf. „Ef allt fljótið nær að brjótast þarna til austurs og norðurs þá er ljóst að lönd, mannvirki og búsmali eru í hættu. Vegna þessarar hættu þá verður að bregðast fljótt við með því að lengja varnargarðinn austan við Markarfljót, allt niður að sjó, því Markarfljót sækir einnig til austurs af miklum krafti niður við sjó.“

Tillagan var samþykkt samhljóða.