Í sumar mun nýr baðstaður, Laugarás Lagoon, opna í Laugarási í Biskupstungum. Staðurinn er á bökkum Hvítár með útsýni yfir hina glæsilegu Iðubrú. Baðstaðurinn er hannaður þannig að hann fellur á fullkominn hátt inn í landslagið og veitir gestum einstaka upplifun með baðlóni á tveimur hæðum og einstöku útisvæði.
„Við hlökkum gríðarlega til að opna baðstaðinn fyrir gestum í sumar og bjóða fólk velkomið í fallega þorpið í Laugarási. Frá baðlóninu geta gestir notið staðarins í einstakri nálægð við náttúruna og sótt sér ferska matarupplifun úr nærsveitum á veitingastaðnum Ylju,“ segir Bryndís Björnsdóttir, framkvæmdastjóri, en nákvæm dagsetning opnunar verður tilkynnt með vorinu.
„Við finnum nú þegar fyrir mikilli eftirvæntingu fyrir baðstaðnum hér heima og erlendis sem er virkilega ánægjulegt því við erum rétt að hefja kynningu á baðstaðnum og þeim töfrum sem hann hefur upp á að bjóða,“ bætir Bryndís við.

Matarupplifun Gísla Matt kemur í uppsveitirnar
Mikilvægur þáttur í töfrum Laugarás Lagoon verður veitingastaðurinn Ylja sem Gísli Matthías Auðunsson fer fyrir. Gísli Matt er einn af virtustu matreiðslumönnum landsins og hafa veitingastaðir hans, Slippurinn í Vestmannaeyjum og Skál í miðborg Reykjavíkur, borið hróður hans um allt land og út fyrir landsteinana. Á Ylju munu gestir njóta matreiðslu sem nýtir ferskt sjávarfang, afurðir frá bændum á Suðurlandi, þá ekki síst hið ljúffenga grænmeti sem svæðið er þekkt fyrir.

