Brennisteinsmengunar varð vart á Selfossi á tólfta tímanum í morgun í svo miklu mæli að loftgæði reyndust óholl samkvæmt mæli Umhverfis- og orkustofnunar.
Uppruni mengunarinnar er líklega frá Nesjavallavirkjun en þar hefur mælst mikil mengun í froststillunni í morgun.
Loftgæðamælir Umhverfis- og Orkustofnunar á Selfossi fór hæst í 145,1 µg/m³ á tólfta tímanum í morgun en tölurnar hafa verið á leið niður á við síðan þá og eru loftgæðin nú aftur orðin góð.
„Þetta eru óvenju há H2S gildi fyrir Selfoss, líklega hæstu gildin á þessu ári. Þetta gæti verið að koma frá Nesjavallavirkjun, það er norðvestan á Nesjavöllum þó það sé norðaustan á Selfossi. Svo líklega er þetta mengun frá Nesjavöllum sem er að búin að ferðast í hálfhring,“ sagði Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá UOS, í samtali við sunnlenska.is.
„Það er hægviðri og kalt þannig að þá liggur mengunin frekar við jörðu,“ bætir Þorsteinn við.
