Mikil aukning útkalla BÁ frá því í fyrra

Útköll hjá slökkviliði Bunavarna Árnessýslu voru nánast jafnmörg á fyrri helmingi þessa árs eins og allt árið í fyrra.

Útköll á stöðvar slökkviliðsins voru 83 á tímabilinu janúar byrjun til júní loka en í fyrra voru þau einungis 85 allt árið, en árið 2014 var reyndar óvenju rólegt ár hvað útköll varðar.

Dreifing útkallanna á stöðvarnar er nokkuð jöfn að undanskilinni starfsstöðinni á Selfossi en 32 útköll hafa komið á þá starfsstöð. Slökkviliðseining BÁ á Selfossi fer því á einn eða annan hátt í 38% útkalla í Árnessýslu.

Ef litið er á fjölda útkalla á stöðvar BÁ eftir sveitarfélögum sem eiga og reka Brunavarnir Árnessýslu þá eru flest útköll í Árborg eða 24 talsins. Það eru 29% af útköllum á stöðvar BÁ í sýslunni. Næst á eftir Árborg kemur Bláskógarbyggð með 18 útköll á stöðvar eða um 22% útkalla. Fast á hæla Bláskógarbyggðar fylgir Grímsnes og Grafningshreppur með 15 útköll á stöðvar sem eru um 18% útkalla á fyrri hluta árs 2015.

Ástæður útkallanna eru eins og svo oft áður í flestum tilfellum vegna elds eða 47 útköll á stöðvar sem samsvarar 55% af útköllum á fyrri hluta ársins. Þar á eftir koma umferðaóhöpp eða 24 útköll á stöðvar sem reiknast 28% útkalla.

Fyrri grein„Vakti ekki fyrir mér að splundra samfélaginu“
Næsta greinBragðlaust jafntefli á Nesinu