Mikil aukning í sölu á heilsuvörum

„Það er gríðarleg ánægja hjá viðskiptavinum okkar með þetta framtak og þeir byrja að spyrja okkur með löngum fyrirvara hvenær við byrjum næst,“ segir Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir, innkaupastjóri hjá Nettó.

Nú í vikunni byrjuðu svokallaðir Heilsu- og lífstílsdagar í öllum verslunum Nettón en á Heilsudögum eru heilsuvörur á miklum afslætti. Er þetta í tíunda skipti sem Heilsudagarnir eru haldnir.

Sæunn segir að heilsuvörur verði sífellt vinsælli og er Nettó á Selfossi þar engin undantekning. „Við sjáum mjög mikla aukningu á sölu í lífrænum matvörum, hollari valkostum og ýmsu sérfæði enda bera búðirnar þess merki með sífellt stækkandi deildum og auknu vöruvali.”

Vegan vörur í hröðum vexti
Aðspurð hver sé „heitasta“ heilsuvaran segir Sæunn að lífrænt súkkulaði hefur verið mjög vinsælt í mörg ár. „Nú er fólk einnig farið að kaupa umtalsvert meira af lífrænni matvöru, til dæmis baunum, pasta og sósum. Vegan vörur eru jafnframt í mjög hröðum vexti ásamt bæði glúten- og sykurlausum valkostum. Svo eru ýmis konar næringarstykki, möndlumjólk, chia fræ og kínóa á hraðri uppleið.“

Sæunn segir að margir nýti sér afsláttinn og kaupi sér nokkurra mánaða skammta af bætiefnum. „Einnig er mikið um að fólk kaupi í miklu magni þær vörur sem það notar mest dags daglega í eldhúsinu. Margir taka til dæmis jurtamjólk í kassavís, mikið magn af lífrænum hráefnum í matargerð og birgja sig upp af nestisvænum lausnum. Það er líka mjög vinsælt að kaupa dýrari lúxusvörur sem fólk leyfir sér ef til vill ekki á hverjum degi, til dæmis ýmiss konar ofurfæðisduft, lífrænar hnetur og fleira,“ segir Sæunn að lokum.

Fyrri greinNý verðlaunabók frá Sæmundi
Næsta greinRáðast í byggingu félagsheimilis