Mikil ásókn í lóðir í Þorlákshöfn

Þorlákshöfn. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Sveitarfélagið Ölfus auglýsti á dögunum lóðir fyrir 32 íbúðir í nýju hverfi, svokölluðu Norðurhraunshverfi.

Lóðirnar fóru í auglýsingu á þriðjudegi og tveimur dögum seinna voru komnar umsóknir um allar lóðirnar. Öllum lausum lóðum hefur nú verið úthlutað en fleiri en ein umsókn var um flestar lóðirnar og þurfti því að draga um úthlutun á þeim.

Lóðum er úthlutað með fyrirvara um afhendingu 1. janúar en gatnagerð 1. áfanga í hverfinu á að ljúka um miðjan desembermánuð.

Næsti áfangi væntanlegur
Elliði Vignisson, bæjarstjóri, segir á heimasíðu sinni að í ljósi þessarar miklu eftirspurnar þurfi nú að skoða vandlega hvort ekki sé rökrétt að ráðast í beinu framhaldi í gatna- og lóðagerð við næsta áfanga í þessu hverfi en þar hefur þegar verið skipulagt hverfi með bæði rað- og einbýlishúsalóðum. 

Fyrri greinSelfyssingar töpuðu á Ísafirði
Næsta greinSjö árum síðar