Mikil ánægja með heilsuræktarnámskeið

Ljósmynd/Hveragerðisbær

Heilsuræktarnámskeið fyrir eldri íbúa í Hveragerði gekk vonum framar nú í vetur en um 90 manns skráðu sig í upphafi á námskeiðið, sem ætlað var 60 ára og eldri.

Gríðarstór hópur hefur því mætt í Hamarshöllina þrisvar í viku og iðkað þar fjölbreytta líkamsrækt við kjöraðstæður. Mikil ánægja er meðal þátttakenda með námskeiðið og hefur ítrekað verið óskað eftir framhaldi en vegna óvissu við þróun heimsfaraldurs var ákveðið að hafa námskeiðið aðeins í 6 vikur í upphafi.

Nýverið lagði forstöðumaður stuðningsþjónustu til við bæjarráð að námskeiðið yrði framlengt um að minnsta kosti fjórar vikur og hefur bæjarráð fallist á þessa ósk og því verður námskeiðinu framhaldið eitthvað fram eftir maímánuði.

Kennari er Berglind Elíasdóttir, M.Ed. íþrótta- og heilsufræðingur, en hún hefur sérhæft sig í þjálfun eldri aldurshópa og vann meistaraverkefnið sitt í tengslum við það. Sér Berglind um allt skipulag og framkvæmd námskeiðsins.

Aðspurðir segja þátttakendur að æfingarnar séu bæði krefjandi og góðar og að þeir fyndu nú þegar mikinn mun á sér. Einnig skiptir félagslegi þátturinn miklu máli, að mæta og hitta annað fólk. Þarna treystir fólk vinabönd og myndar ný og á jákvæð samskipti við annað fólk sem er ekki síður mikilvægur hluti af góðri heilsu.

Fyrri grein37 milljónum króna úthlutað til atvinnuþróunar- og menningarverkefna
Næsta greinFjórtán Sunnlendingar í úrvalshópi FRÍ