„Mikið væri æðislegt að mála þennan vegg!“

Nemendur í Veggjalistar-áfanganum eru á fullu þessa dagna að búa til ný listaverk á vegginn. Ljósmynd/Ágústa Ragnarsdóttir

Veggurinn við bílastæðið hjá íþróttahúsinu Iðu á Selfossi hefur vakið verðskuldaða athygli í gegnum árin fyrir einkar fallegar og litríkar myndir.

Nemendur í myndlistaráfanganum Veggjalist við Fjölbrautaskólann á Suðurlandi eiga heiðurinn af myndskreytingunni en myndirnar á veggnum eru endurnýjaðar að hluta til á tveggja ára fresti. Þessa dagana hafa nemendur áfangans nýtt veðurblíðuna vel við að gera nýjar myndir á vegginn margrómaða.

„Veggurinn var málaður í fyrsta skipti haustið 2015 og þá nyrðri helmingur hans í fyrstu. Ári seinna var áfanginn aftur í boði og þá var syðri helmingurinn tekinn og þar með voru allir þessir tæplega 100 metrar orðnir að einu heljarinnar listaverki. Að auki höfum við myndskreytt helming hinnar hliðar hans er snýr að íþróttavellinum – gerðum það fyrir tveimur árum,“ segir Ágústa Ragnarsdóttir, myndlistarkennari við FSu í samtali við sunnlenska.is.

Ágústa Ragnarsdóttir. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Grár tómlegur strigi
Ágústa segir að hún og Elísabet Helga Harðardóttir, myndlistarkennari við FSu til rúmlega 30 ára, hafi báðar fengið hugmyndina að því að myndskreyta vegginn. „Við Lísa fengum báðar þessa flugu í höfuðið en veggurinn blasir við þegar horft er út um glugga myndlistarstofu skólans. Þar truflaði þessi grái tómlegi strigi litaglöðu okkur og önnur hvor yrti þetta að fyrra bragði við hina og þá kom í ljós að báðar höfðu verið að hugsa hið sama: Mikið væri æðislegt að mála þennan vegg!“

„Í framhaldi töluðum við skólastjórnendur varðandi nýjan myndlistaráfanga sem hlaut svo nafnið Veggjalist og þegar sá hafði verið samþykktur töluðum við við bæjaryfirvöld hjá Árborg sem á vegginn og fengum leyfi til að nota hann í þágu listagyðjunnar. Leyfið var veitt með þeim formerkjum að þemað yrði bókmenntir eða vísun í skáldskap hvers konar og það höfum við haft í heiðri síðan.“

Stór hluti endurnýjaður í vor
Ágústa segir að nemendur sjái um að mála vegginn að lang stærstum hluta en kennarar taki líka eina og eina mynd auk þess að flikka upp á eldri verk sem hafa látið á sjá vegna veðurs og vinda.

„Áfanginn er valáfangi sem er í boði á tveggja ára fresti eða fjórðu hverju vorönn. Þá er hluti hans endurnýjaður og fer eftir fjölda nemenda hverju sinni hversu stóran part er hægt að endurnýja frá grunni. Núna eru til dæmis nokkuð mörg í áfanganum sem þýðir að rúmlega helmingur veggjarins mun fá nýjar myndir á sig. Einhverjar eru svo lagfærðar og þá um leið breytt um stíl á þeim af kennurum.“

Verk í vinnslu. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Tekið akkorð þegar veðurspáin er hagstæð
Ferlið frá hugmynd að veruleika tekur eðlilega sinn tíma. „Fyrstu fimm vikur áfangans er innivinna. Þá er hugmynda- og skissuvinna þar til nemendur hafa tilbúna fullunna skissu í lit ásamt svokallaðri rúðustækkun. Skissunum er svo raðað rafrænt á vegginn í Photoshop og þannig fundið út hvað passar vel hlið við hlið, hvernig myndir geta flætt saman og svo framvegis.“

„Svo er gerð pása í áfanganum í allt að tvo mánuði eða vel inn í apríl þegar veður fer að verða stabílla. Þegar veðurspá er hagstæð er tekið akkorð og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða seinni parta eftir hefðbundinn skólatíma, helgar eða aðra frídaga. Og alltaf hefur þetta náðst fyrir annarlok.“

Yngri kynslóðin dolfallin yfir hæfileikunum
Ágústa segir að viðtökurnar við myndskreytingunni séu nánast undantekningarlaust alltaf afar góðar. „Þegar verið er að grunna og kríta upp myndirnar eru ekkert mikil viðbrögð en þegar allt fer að taka á sig mynd og heildaryfirbragð verður oft skemmtilegt spjall við vegfarandur og þá sérstaklega yngri kynslóðina sem er alveg dolfallin yfir hæfileikum þeirra er vegginn skreyta.“

Aðspurð hvort það sé aldrei erfitt að mála yfir fallegt verk segir Ágústa það geta verið það. „En vissulega fá flest þessara verka að standa í hið minnsta fjögur ár og jafnvel lengur. Eðli þessa listforms er forgengilegt, veður og vindar vinna á því, og ef þetta á að halda sér þarf að reglulegt viðhald annars verður þetta ljótt. Og svo eru breytingar líka góðar því þá fer fólk að veita fyrirbærinu athygli aftur. Aðeins ein mynd hefur fengið að halda sér öll árin en hún var sú fyrsta sem byrjað var á á sínum tíma, afar lýsandi fyrir þemað og vissulega er hún skveruð reglulega.“

Alltaf opið og aðgangur ókeypis
Stefnan er að allri myndskreytingu sé lokið fyrir 8. maí. „Ef veðrið leikur svona við okkur áfram í góða viku eða svo þá ætti það að takast. Það er bara harkan sex!“

„Ég hvet fólk til að gera sér ferð og berja þess listasýningu augum. Það er alltaf opið og kostar ekkert inn! Það er bæði gaman að fylgjast með þessu verða til og ekki síðra að njóta þegar allt er tilbúið. Og muna að það eru líka myndir hinum megin, reyndar íþróttaþema þar. Mörgum krökkum finnst mjög gaman að reyna að búa til einhvers konar myndasögu úr flæðinu,“ segir Ágústa að lokum.

Veggurinn er skreyttur báðum meginn. Þessi hluti snýr að íþróttavellinum. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinGleðilegt sumar!
Næsta greinVélsleðaslys við Háskerðing