Mikið tjón á Efra-Seli eftir eldsvoða

Unnið að slökkvistarfi á Efra-Seli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íbúðarhúsið á Efra-Seli við Stokkseyri er að öllum líkindum ónýtt eftir eldsvoða í dag. Neyðarlínan fékk tilkynningu um eldinn um klukkan hálf tvö og var þá mikill reykur frá húsinu.

„Það var talsverður eldur á efri hæðinni, mikill reykur og hiti þegar við komum að húsinu. Við fengum fljótlega þá vitneskju um að húsið væri mjög líklega mannlaust. Við sendum menn inn í húsið til að byrja með en svo féll gólfið á efri hæðinni og þá var ekki óhætt að senda menn inn í húsið,“ sagði Haukur Grönli, varaslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is á vettvangi.

Slökkviliðið notaði meðal annars körfubíl til þess að auðvelda vinnuna á vettvangi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Þegar reykkafararnir fóru inn þá var reykurinn frá húsinu mjög hvítur sem bendir til þess að þá sé orðin mikil kæling þarna inni. En þetta hús er gamalt og það er einangrað með hálmi að einhverjum hluta. Það þýðir að þegar verður svona mikill hiti þá kemst eldurinn inn í einangrunina og þá er orðið mjög erfitt að eiga við þetta,“ sagði Haukur ennfremur og bætti við að slökkvistarf muni standa eitthvað frameftir degi.

Um tuttugu slökkviliðsmenn eru við vinnu á vettvangi en slökkviliðsmenn frá Selfossi voru kallaðir á staðinn og þeir fengu síðar aðstoð frá stöðinni í Hveragerði varðandi vatnsöflun.

Íbúðarhúsið á Efra-Seli er byggt árið 1929. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is átti enginn fasta búsetu í húsinu en verið var að vinna að uppgerð þess. Ljóst er að tjónið er mikið og að öllum líkindum er húsið ónýtt eftir eldsvoðann.

Engar upplýsingar liggja fyrir um eldsupptök og slökkvistarf stendur ennþá yfir.

Allt tiltækt lið slökkviliðsmanna frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi vann að slökkvistarfinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSkógræktin hvetur fólk til þess að knúsa tré
Næsta greinÁs leitar að bakvörðum í ýmis störf