Mikið hlegið við spilaborðið

Jóhannes Helgason með heitasta spilið fyrir þessi jólin. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ein af jólagjöfunum í ár er Svarti sauðurinn, nýtt íslenskt borðspil sem vakið hefur mikla athygli og er mjög vinsælt.

„Við erum bara tveir gaurar sem höfðum fyrir þetta enga reynslu af því að semja, hanna, framleiða eða gefa út borðspil áður,“ segir Hrunamaðurinn Jóhannes Helgason sem gefur út spilið ásamt Valþóri Erni Sverrissyni.

„Spilið hefur heldur betur slegið í gegn hjá þeim sem hafa spilað það. Þetta er óhefðbundið borðspil að ýmsu leiti, til dæmis er enginn sigurvegari í spilinu og ólíkt öðrum spilum vill maður alls ekki færast áfram um reiti,“ bætir Jóhannes við.

Hver á erfiðasta makann?
Gangur spilsins er þannig að upp er borin óþægileg spurning. T.d. hver á erfiðasta makann? Hver nöldrar mest? Hver notar of mikinn rakspíra? Og þar fram eftir götunum. Leikmenn þurfa síðan að greiða atkvæði og sá leikmaður sem fær flest atkvæði þarf að fara eftir því sem stendur á bakhlið spurningarinnar. Langoftast þarf viðkomandi að fara áfram um einhverja reiti og vera þá þeim mun nær því að standa uppi sem Svarti sauðurinn í enda spilsins.

„Þeir sem hafa spilað spilið hafa hlegið mikið, sagt ýmsar sögur og auðvitað tekist á um einhverja hluti,“ segir Jóhannes að lokum en spilið er ætlað 16 ára og eldri og geta fjórir til átta spilað það í einu.

Poppa upp í Hafnarfirði um helgina
Svarti sauðurinn
fæst meðal annars í A4, Spilavinum og í völdum Bónusverslunum, t.d. á Selfossi. Einnig má panta það á svartisaudurinn.is og þeir Jóhannes og Valþór ætla að verða með pop-up verslun á Jólabarnum á Hafnartorgi í Reykjavík um helgina og á Þorláksmessu þar sem hægt verður að kaupa spilið.

Fyrri greinFasteignaskattur í Árborg tekur mið af lífskjarasamningnum
Næsta greinFyrirliðinn og nýliðinn með pennana á lofti