Mikið að gera hjá slökkviliðinu síðustu daga

Eldur kom upp í beltagröfu í námu í Hrunamannahreppi. Ljósmynd/BÁ

Síðastliðinn miðvikudag kom upp eldur í mannlausri beltagröfu í námu í Hrunamannahreppi.

Unnið hafði verð á vélinni fyrr um daginn og ekki að sjá annað en að hún væri í lagi þá. Brunavarnir Árnessýslu slökktu eldinn en tjón á vélinni er mikið.

Annars hafa Brunavarnir Árnessýslu haft í mörgu að snúast síðustu daga. Þann 29. maí eyðilagðist mannlaus rúta þegar hún brann á Einholtsvegi í Biskupstungum. Daginn áður kviknaði eldur í gróðri út frá ruslabrennu en óheimilt er að brenna rusl í dag og er málið í rannsókn hjá lögreglu.

Síðastliðinn laugardag kviknaði eldur í sinu á Skeiðum út frá grilleldamennsku og sama dag kom upp eldur í gróðri í Húsadal í Þórsmörk. Vegfarendur slökktu eldinn og liðsmenn Brunavarna Rangárþings sprautuðu síðan vatni yfir til að tryggja að hvergi leyndist glóð.

Þá varð stórbruni í Miðfellslandi við Þingvallavatn þar sem sumarbústaður brann til grunna. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að húsráðandi hafi gleymt sér við smíðar útivið og því að hann hafði þá þegar hafið eldamennsku inni.