Mikið annríki hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst rétt fyrir hálfellefu í morgun neyðarbeiðni frá ferðamönnum sem voru á ferð austan við Torfajökul en einn ferðamannanna hafði fótbrotnað.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ var kölluð út og fór í loftið rétt um 20 mínútum síðar. Þá hélt hálendisvakt björgunarsveitanna einnig á vettvang en töluvert löng ganga var að staðnum þar sem óhappið varð og slæm færð.

Þyrlan kom á vettvang rétt fyrir hálftólf og sigu sigmaður og læknir í áhöfn þyrlunnar niður að hinum slasaða til að meta ástand og gera viðkomandi tilbúinn fyrir flutning. Var sjúklingnum komið fyrir á hífingarbörum og hann hífður um borð í þyrluna. Hélt þyrlan áleiðis til Reykjavíkur og lenti hún á Reykjavíkurflugvelli klukkan 12:16. Var ferðamaðurinn fluttur þaðan með sjúkrabíl á Landspítala Háskólasjúkrahús.

Mikið annríki hefur verið hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar að undanförnu en sem dæmi er þetta fimmta útkallið það sem af er júlímánuði þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar fer í sjúkraflug vegna slasaðs ferðamanns.

Fyrri greinHissa að sjá lögguna tvo daga í röð
Næsta grein„Við ætlum okkur alla leið“