Mikið af köldu vatni finnst við heitavatnsleit

Gríðarlega mikið af köldu neysluvatni fannst á 120 metra dýpi í borholunni við Goðaland í Fljótshlíð. Þar leitar Rangárþing eystra nú að heitu vatni.

Að sögn Ísólfs Gylfa Pálmasonar, sveitarstjóra, er fyrst og fremst um hitavatnsleit að ræða en ef þörf er á muni sveitarfélagið vafalítið nýta sér kalda vatnið.

„Það var nú sagt í gáska þegar ég var sveitarstjóri í Hrunamannahreppi að neysluvatnið þar væri verðmætara en heita vatnið. Við værum alveg til í að vera með vöruskiptajöfnuð – á heitu og köldu vatni – við vini mína þar efra,“ sagði Ísólfur Gylfi í léttu spjalli við sunnlenska.is.

Það er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem sér um borunina. Ætlunin var að fara niður á allt að 200 metra dýpi en ef vart verður hitabreytinga kann að verða borað niður á 250 metra en lengra nær borinn ekki.

Fyrri greinFrumsýningarveisla Jóns Daða
Næsta greinBÁ vill kaupa Björgunarmiðstöðina