Mikið um skemmdarverk á Selfossi

Skemmdarvargar og innbrotsþjófar voru fyrirferðamikilir um helgina í umdæmi lögreglunnar á Selfossi.

Tilkynningar bárust um innbrot og skemmdarverk í nokkur fyrirtæki í Gagnheiði á Selfossi. Má þar nefna Jáverk og Smíðanda en engu stolið að talið er.

Brotist var inn hjá Vélgröfunni og stolið ASUS fartölvu og TOYO Open country A/T hjólbörðum af stærðinni 31/10,5. R15. Brotist var inn í bifreið sem stóð á lóð Rarik við Gagnheiði.

Á tímabilinu frá miðnætti á föstudag til kl. 2:00 aðfaranótt laugardags var brotin afturrúða í blárri Skoda Octavia bifreið sem stóð fyrir utan 800 bar.

Rúða var brotin í útihurð leikhússins við Sigtún. Lögreglan biður hvern þann sem veitt getur upplýsingar um þessi innbrot og skemmdarverk að hafa samband í síma 480 1010.

Fyrri grein80 manns í beltaprófi
Næsta greinÍ gæsluvarðhaldi til 20. desember