Mikið um óhöpp í vikunni

Fimmtán umferðaróhöpp eru skráð í síðustu viku hjá Selfosslögreglunni og fimm annars konar slys þar sem fólk hefur dottið og beinbrotnað.

Síðdegis á föstudag lentu fjórir bílar í árekstri við hringtorgið á Suðurlandsvegi hjá Hveragerði. Nokkrir hlutu bak- og hálsáverka og talsvert tjón varð á ökutækjunum. Aftanákeyrslur eru algengar á þessum stað en borið hefur á því að ökumenn hafi haft of lítið bil á milli ökutækja og ekki náð að stöðva er ökutæki á undan hefur stöðvað óvænt.

Fjórir slösuðust lítils háttar í bílveltu sem varð á laugardag á Grafningsvegi við Torfastaði og um kvöldmatarleytið á laugardag varð fjórhjólaslys við Syðri Brú í Grímsnesi. Fimmtán ára stúlka ók fjórhjólinu með tvo farþega, konu og barn.