Mikið tekjutap vegna snjóa

Ferðaþjónustuaðilar á Suðurlandi hafa orðið fyrir miklu tekjutapi þar sem hálendisvegir eru ennþá lokaðir vegna snjóa.

Hjá Hellismönnum sem reka ferðaþjónustu í Landmannahelli að Fjallabaki hafa tæplega 300 gistinætur frá 10. júní dottið út þar sem leiðin inn eftir er ennþá lokuð. Engilbert Olgeirsson, einn Hellismanna, segir að tekjutap vegna þessa sé rúmar 900 þúsund krónur.

Ferðafélag Íslands hefur sömuleiðis orðið fyrir töluverðum afbókunum í júní vegna veglokana. Mikið hafði verið bókað frá miðjum júní bæði í Landmannalaugum og á Laugaveginum.

“Það hefur opnað snemma inn á hálendið undanfarin ár en það er algengara að við höfum verið að opna í kringum 20. júní þannig að þessi tími núna er kannski meira í samræmi við það,” sagði Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ, í samtali við sunnlenska.is.

“Miðað við okkar áætlanir viljum við ekki kalla þetta tap en vissulega náum við inn auknum tekjum þegar vel árar og ferðamenn eru fyrr á ferðinni,” sagði Páll.