Mikið líf í Menningarverstöðinni

Forsvarsmenn Draugasetursins og Menningarverstöðvarinnar á Stokkseyri efndu til kynningar í gær fyrir fjölmiðla og ferðaþjónustuaðila.

Í Menningarverstöðinni í Hólmarastarhúsinu eru fjölmargir afþreyingarmöguleikar í boði fyrir ferðamenn en þar er m.a. hið rómaða Draugasafn og heimur álfa, trölla og norðurljósa.

Á kynningunni í gær voru m.a. sýndar nýjungar á sýningunum í húsinu og var ekki annað að sjá en að þeim fjölmörgu gestum sem mættu á kynninguna litist vel á.

Þór Vigfússon, stjórnarformaður Draugasetursins, tók á móti hópnum og kynnti starfsemina í húsinu. Meðal annars var listaverkið ‘Brennið þið vitar’ gangsett og fólk gat skoðað vinnustofur listamannanna sem vinna í húsinu.

Þá var boðið upp á ljúfa þjóðlagaskotna tónlist og veitingar frá Fjöruborðinu og Ölvisholti brugghúsi.