Mikið líf í Litlasjó og Grænavatni

Í þriðju veiðivikunni í Veiðivötnum 3. – 9. júlí, veiddust 1.685 fiskar. Sem fyrr veiddist best í Langavatni en mikil líf er í Litlasjó og Grænavatni.

Alls veiddust 749 urriðar og 936 bleikjur í vikunni. Úr Langavatni komu 312 fiskar en 244 úr Nýjavatni fengust og 233 úr Litlassjó.

Alls hafa 6.168 fiskar komið á land í vötnunum það sem af er sumri, sem er nokkru minna en undanfarin ár. Mestu munar þar um lakari veiði í Litlasjó.

Meðalþyngd fiska úr vötnunum er rúm 2 pund, hæst er meðalþyngdin 5,63 pund í Grænavatni en stærsti fiskurinn það sem af er veiðitímanum er 12,4 punda urriði úr Grænavatni.

Mikið líf virðist vera í Litlasjó og Grænavatni en um leið og lygnir sjást skvettur um allt. Fiskurinn í þessum vötnum virðist vera styggur og fljótur að fara frá bökkum við minnsta áreiti en mikil umferð manna og ökutækja við vötnin veldur titringsbylgjum sem fæla fiskinn. Oft líða 1-2 klst þangað til fiskurinn fer að nálgast aftur bakkana og komast í kastfæri.

Á heimasíðu Veiðivatna eru veiðimenn hvattir til að fara gætilega að vatnsbökkum, ekki aka alveg ofan í fjöru með látum og ekki ösla út í vötnin í vöðlunum. Miklu gæfulegra sé að læðast að bökkum og sleppa því að vaða útí, vilji menn fá fisk.

Fyrri greinEinn á slysadeild eftir harðan árekstur
Næsta greinOf stór skammtur af Vogaídýfu