Mikið járn í heysýnum

Niðurstöður á verkuðum heysýnum sem starfsmenn Búnaðarsambands Suðurlands tóku á tólf bæjum undir Eyjafjöllum leiða í ljós mikið magn af járni í heyinu.

Þann 8. júní sl. voru nokkrir bæir á áhrifasvæði eldgossins heimsóttir og tekin gróðursýni til steinefnamælinga. Í byrjun september var svo farið á flesta þessa bæi aftur og verkuð heysýni tekin til að skoða hvernig til hefði tekist við heyöflun m.t.t. öskumengunar.

Niðurstöður leiddu í ljós eðlileg gildi flestra steinefna en á átta af tólf bæjum var járngildi yfir eitrunarmörkum.

Styrkur járns ræðst mest af jarðvegsmengun og í þessu tilfelli öskumagni í gróðri. Járn í fóðri hefur meðal annars áhrif á upptöku kopars og sinks og getur of mikið járn í fóðri kallað fram skort á þessum efnum. Þá getur mikið járn einnig leitt til eitrunar og hafa eitrunarmörkin verið sett við 1.000 mg/kg þe.