Mikið hagsmunamál í höfn

Magnús Skúlason forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, segir daginn í dag mikinn gleðidag. Lokahluti nýbyggingar HSu var formlega opnaður í dag.

Nýbygging HSu á Selfossi var formlega opnuð í dag og starfsemi nýju heilsugæslustöðvarinnar við Árveg hefst eftir helgi.

„Í þessum síðasta áfanga bætist við ný og stórglæsileg heilsugæslustöð, ásamt góðri aðstöðu fyrir endurhæfingu, kennslu, fundi og ýmsa stoðþjónustu. Framkvæmdir hafa gengið mjög vel þó nokkur töf hafi orðið á þeim,” sagði Magnús en fyrsta skóflustungan var tekin árið 2004.

“Ég er sérstaklega ánægður með það jákvæða hugarfar sem ríkt hefur gagnvart þessari framkvæmd. Heilbrigðisráðuneyti, þingmenn, sveitarstjórnir, starfsfólk og íbúar hafa lagst á eitt og stutt vel við bakið á þessu verkefni – og það munar um þann stuðning. Hér er enda um mikið hagsmunamál að ræða fyrir þá 20 þúsund íbúa, sem við þjónustum, auk allra annarra, sem hingað þurfa að leita,“ sagði Magnús í samtali við sunnlenska.is