Miðflokkurinn upp um 10,1 prósent í Suðurkjördæmi

Fylgi Miðflokksins eykst um 10,1 prósent á milli mánaða í Suðurkjördæmi samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup sem tekinn var í október.

Miðflokkurinn var með 11,8 prósent í september en mælist með 21,9 prósent í Þjóðarpúlsi októbermánaðar. Flokkurinn fengi tvo kjördæmakjörna þingmenn ef gengið væri til kosninga nú en fékk einn í síðustu kosningum.

Samfylkingin nýtur mests fylgis í Suðurkjördæmi sem fyrr. Fylgi Samfylkingarinnar er 24,8 prósent og þar á eftir kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 23,5 prósent.

Sem fyrr er stærsta vígi Flokks fólksins í Suðurkjördæmi en það hefur dalað jafnt og þétt frá síðustu Alþingiskosningum og er nú komið undir 10 prósent. Flokkurinn er með 9,9 prósent fylgi í Suðurkjördæmi og tapar 3,7 prósentum á milli mánaða.

Viðreisn er með 8,8 prósent en fylgi Framsóknarflokksins snarminnkar á milli mánaða og er nú 5,8 prósent.

Aðrir flokkar eru með mun minna fylgi en Vinstri grænir, Píratar, Sósíalistaflokkurinn og aðrir eru undir 2,1 prósentum.

Gallup fékk 652 svör frá kjósendum í Suðurkjördæmi í netkönnun sem gerð var dagana 1. október – 2. nóvember og birtir sunnlenska.is niðurstöðurnar úr Suðurkjördæmi í samstarfi við RÚV. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Samfylkingin fengi þrjá kjördæmakjörna þingmenn
Yrðu þetta niðurstöður þingkosninga í dag mynd Samfylkingin fá 3 kjördæmakjörna þingmenn í Suðurkjördæmi, Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn 2 og Viðreisn og Flokkur fólksins 1. Framsóknarflokkurinn næði ekki inn kjördæmakjörnum manni í Suðurkjördæmi.

Fyrri greinFirst Water lýkur 3,5 milljarða króna hlutafjáraukningu
Næsta greinEnn þyngist róðurinn hjá Hamri/Þór