Miðbæjarkötturinn Snuðra heillar alla

Miðbæjarkötturinn Snuðra tekur sér lúr í Pennanum. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Selfyssingar hafa eignast sinn eigin miðbæjarkött en læðan Snuðra hefur vanið komur sínar í verslanir í miðbæ Selfoss við mikla gleði hjá flestum, enda einstaklega gæfur og blíður köttur.

Snuðra er orðinn fastagestur hjá ákveðnum fyrirtækjum og á hún til að mynda sitt eigið bæli í versluninni Hlöðunni sem stendur við Brúarstræti.

Eigandi Snuðru er Ragnheiður Ósk Traustadóttir og býr hún á Kirkjuveginum, rétt við miðbæinn. Ragnheiður segir að Snuðra hafi byrjað að fara í miðbæinn nánast um leið og hann opnaði sumarið 2021.

„Ég held að hún skipti svolítið jafnt á milli staða sem hún heimsækir. Þegar hún er búin að vera lengi á einum stað þá skiptir hún um stað. Hún til dæmis byrjaði að vera mikið á Konungskaffi, svo var hún held ég alltaf í Pennanum og núna síðast í Hlöðunni.“

Snuðra unir sér vel í Pennanum innan um skólatöskur og ritföng. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Á systur sem heitir Tuðra
Mörgum finnst nafnið á Snuðru vel við hæfi en Ragnheiður segir að hún hafi þó ekki fengið nafnið vegna þess að hún væri mikið að snuðra. „Hún er alveg forvitin en hún og systir hennar eru skírðar í höfuðið á öðrum systrum sem heita Snuðra og Tuðra. Þegar dóttir okkar var tveggja ára þá lásum við mikið bækurnar um þær systur og var ákveðið að kisurnar ættu að fá þau nöfn,“ segir Ragnheiður en þess má geta að Tuðra, systir Snuðru, er heimakærari og er ekkert að þvælast í miðbænum.

En hvað finnst Ragnheiði um að Snuðra sé að fara inn í fyrirtæki og verslanir í miðbænum? „Þetta var ekki óvenjuleg hegðun hjá Snuðru en við bjuggum í Garðabæ áður en við fluttum hingað fyrir um fjórum árum síðan. Þar var Krónubúð hinum megin við götuna og var hún mikið þar. Hún virðist vera mikil félagsvera,“ segir Ragnheiður en þess má geta að Snuðra er níu ára gömul.

Snuðra í Groovís þar sem hún hefur stundum fengið ís eða mjólk. Ljósmynd/Guðný Sif

Elskar að vera í kringum fólk
Ragnheiður segir að þessar heimsóknir Snuðru inn í fyrirtæki í miðbænum hafi ekki verið vinsælar til að byrja með. „En svo heillaði hún alla upp úr skónum. Núna er hún, held ég, velkomin á flestum stöðum í miðbænum og allir eru mjög góðir við hana sem ég er þakklát fyrir. En vissulega er í lagi að vísa henni í burtu ef fólk kærir sig ekki um að hafa dýr í búðinni sinni.“

Ragnheiður biðlar því til fólks sem hittir Snuðru á förnum vegi að vera góð við hana. „Hún greinilega elskar að vera í kringum fólkið í miðbænum, kemur heim inn á milli og fær sér að borða og hvíla sig. Ef veðrið er vont og það er kalt úti, þá heldur hún sig heima í hlýjunni. Hún er sannarlega miðbæjarköttur.“

Á körfu fyrir aftan afgreiðsluborðið
Sunnlenska.is sló á þráðinn til Maríu Katrínar Fernandez, eiganda Hlöðunnar, en sú verslun hefur tekið einna best á móti Snuðru í miðbænum.

„Snuðra kom fljótlega til okkar eftir að við fluttum í miðbæinn vorið 2022. Hún lagði sig þá í morgunsólinni fyrir utan verslunina en þá vorum við á mjög góðum stað hvað sólina varðar í Brúarstræti 2. Á eldri staðnum var hún mjög oft fyrir innan afgreiðsluborðið í körfu eða á stól og fékk að vera út af fyrir sig,“ segir María og bætir við að Snuðra hafi svo flutt með þeim þegar verslunin færði sig á nýjan stað í Brúarstrætinu vorið 2023.

„Hún á körfu fyrir aftan afgreiðsluborðið eins og áður en hún er stundum hér fyrir framan afgreiðsluna í stól og svo í gluggunum. Hún kemur sér líka oft fyrir í pappírsruslatunnunni eða undir afgreiðsluborðinu þegar að það eru margir viðskiptavinir í versluninni.“

Snuðra í körfunni sinni í Hlöðunni. Ljósmynd/María Katrín

„Það er því alltaf síðasta verk okkar í lok dags að fara vel yfir felustaðina hennar þannig að hún læsist ekki inni, en hún hefur tvisvar gleymst og lokast inn í verslun. Ég hef þurft að fara sérstaklega og hleypa henni út seint um kvöld eftir að hún vaknar en þá hefur hún hoppað upp á afgreiðsluborðið og ég orðið vör við hana þannig.“

Mikill gleðigjafi
Aðspurð segir María að þeim finnst yndislegt að hafa Snuðru hjá sér. „Hún gefur mér og starfsfólkinu mikla gleði sem og auðvitað viðskiptavinum. Það er líka skemmtilegt að segja frá því að hún fær reglulega að heyra að hún passi mjög vel hér inn hvað litapallettuna varðar.“

Snuðra elskar að vera í kringum fólk í miðbænum. Ljósmynd/María Katrín

„Viðskiptavinir hafa tekið henni mjög vel og ég held að hún sé orðið nokkuð þekkt andlit enda margir sem taka myndir af henni – aðallega erlendir ferðamenn.“

Sem fyrr segir á Snuðra sitt eigið bæli í Hlöðunni. „Ég gaf henni bara körfu strax þar sem hún eignaði sér skrifstofustólinn minn sem við reyndar deildum svo í nokkra mánuði. Hún fer svolítið úr hárum og því er nauðsynlegt að hún eigi sitt bæli.“

Fær alltaf góðar móttökur
María segir að það sé allur gangur á því hversu oft hún kemur til þeirra eða hversu lengi hún dvelji hjá þeim í senn. „Stundum kemur hún nokkra daga í röð og svo stundum sjáum við hana ekki í nokkra daga. Stundum er hún sofandi allan daginn og stundum kemur hún og fer tvisvar þrisvar yfir daginn. En hún snýr oft við og fer aftur inn í verslun þegar ég loka á kvöldin. Ég þarf því alveg að halda á henni út og loka svo strax, annars er hætt við því að hún fari inn aftur án þess að ég taki eftir og lokist inni.“

María vill taka það fram að þau í Hlöðunni gefa Snuðru aldrei neitt að borða. „Við bjóðum henni stundum upp á vatn í krananum. Hún á auðvitað heimili og við vitum að það er vel hugsað um hana. Við tökum alltaf vel á móti henni og hún virðist ánægð með aðstöðuna sína og athyglina,“ segir María að lokum.

Snuðra er mikill gleðigjafi. Ljósmynd/María Katrín
Fyrri greinStærsta lofthreinsistöð heims á Hellisheiði
Næsta greinDeitað á Dirty Dancing