Metvika í Veiðivötnum

Ný met voru slegin í sjöundu viku í Veiðivötnum. Veiðin var sú besta í sjöundu viku frá upphafi skráningar, 2.581 fiskur kom á land. Þetta var jafnframt næstbesta vika sumarsins.

Annað met var slegið að kvöldi 1. ágúst en þá veiddist 16,4 punda urriði í Grænavatni en þetta er stærsti fiskur sem fengist hefur á stöng í Veiðivötnum.

Í vikunni veiddist langmest í Stóra Fossvatni. Þar komu 1.017 fiskar á land. Eins og undanfarin ár var opnað fyrir veiðar með beitu og spún á Síldarplaninu 1. ágúst. Annars er aðeins leyfð veiði á flugu í Fossvötnunum. Fólk á öllum aldri mokveiddi á beitu fystu dagana eftir opnun og skýrir það þessa miklu aflaaukningu í Stóra Fossvatni.

Ágætlega veiddist í Litlasjó, 560 fiskar komu þar á land í vikunni. Einnig fékkst góður afli í Langavatni, Nýjavatni, Breiðavatni og Skyggnisvatni.

Heildarveiðin í Veiðivötnum er komin í 166.276 fiska og meðalþyngdin er tæp 2,0 pd.