„Metnaðarleysi í byggðamálum er sláandi“

Aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi sem haldinn var á veitingastaðnum Tveimur vitum í Garði í dag mótmælir harðlega forgangsröðun í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Í ályktun sem samþykkt var á fundinum segir meðal annars að harkalega sé gengið á hlut hinna efnaminni og forgangsraðað í þágu þeirra efnameiri.

„Metnaðarleysi í byggðamálum er sláandi og niðurskurður í mikilvægum málaflokkum veikir byggðir í Suðurkjördæmi eins og annars staðar á landinu,“ segir einnig í víðtækri ályktuninni sem fer hér á eftir.

„Kjördæmisráðið fordæmir þá aðför sem nú stendur yfir gegn framhaldsskólum landsins með því að meina fólki 25 ára og eldri aðgangi að bóknámi. Þær hugmyndir eru forkastanlegar og munu hafa uppsagnir starfsfólks í för með sér en einnig fátæklegra námsframboð víða um land. Verst verða smærri skólar á landsbyggðinni úti og þau byggðalög sem treyst hafa á framhaldsskólana til að mæta menntunarþörf íbúa. Fullorðnum nemendum er bent á mun dýrara námsframboð símenntunarstöðva og einkaskóla en þær námsleiðir fá hins vegar ekki fjármagn til að taka við fleiri nemendum.

Kjördæmisráð skorar á stjórnvöld að lækka beina greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu sem hækkað hefur mikið á árinu. Sá kostnaður eykur misskiptingu í landinu og hefur áhrif á hvort fólk leiti sér lækninga, kaupi nauðsynleg lyf eða hjálpartæki. Heilbrigðiskerfið á að fjármagna úr sameiginlegum sjóðum og tryggja þarf að allir hafi jafnan aðgang að bestu fáanlegri heilbrigðisþjónustu. Til þess þarf m.a. að hefjast nú þegar handa við byggingu á nýjum Landspítala.

Einnig er skorað á stjórnvöld að undirbúa átak í byggingu hjúkrunarrýma aldraðra, til að mæta brýnni og vaxandi þörf fyrir fleiri rými á komandi árum.

Með styttingu þess tíma sem heimilar greiðslu atvinnuleysisbóta, niðurskurðar á fjármagni til starfsendurhæfingar og framlags til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða er ráðist að kjörum þeirra sem einna veikast standa. Fólk sem glímt hefur við langtímaatvinnuleysi eða býr við örorku verður verst úti. Sveitarfélög bera mikinn kostnað vegna þessara aðgerða stjórnvalda og lífeyrissjóðir knúnir til að skerða réttindi. Við slíkt verður ekki unað.

Til að bíta höfuðið af skömminni ætlar ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna að hækka verð á nauðsynjavörum með hækkun virðisaukaskatts á matvæli og orku sem rýra enn kjör þeirra sem minnst hafa handa á milli. Svokallaðar mótvægisaðgerðir duga alls ekki til að vega upp á móti kjaraskerðingu matarskattsins.

Kjördæmisráðið skorar á stjórnarflokkana að ljúka viðræðum við aðild að Evrópusambandinu og leggja fullgerðan samning í dóm þjóðarinnar. Möguleg aðild að sambandinu með upptöku evru í fyllingu tímans er án efa mesta hagsmunamál þjóðarinnar um áratugaskeið og vítavert að loka greiðustu leiðinni út úr vítahring hárra vaxta og verðtryggingar án þess að ljúka viðræðunum og gefa þjóðinni kost á að kjósa um hann.

Til að undirstrika getuleysi stjórnarflokkanna gagnvart verkefninu má benda á sögulegar vanefndir þeirra í skuldamálum og þeirri staðreynd að rúmu ári eftir að hægri flokkarnir tóku við völdum hefur Íbúðalánasjóður hætt við að bjóða upp á óverðtryggð lán. Lýðskrum Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar og lækkun skulda upp á hundruð milljarða stendur eftir sem vanefndir án fordæma.

Kjördæmisráð telur afar mikilvægt að jafnaðarmenn leiði tiltektina í Reykjanesbæ eftir áratuga óstjórn Sjálfstæðismanna og heitir þeim stuðningi við það krefjandi verkefni. Stjórn Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hefur einkennst af óráðsíu, óraunhæfum áætlunum og stöðugri eignasölu. Staða Reykjanesbæjar er alvarleg og miklu máli skiptir að áherslur jafnaðarmanna móti uppbyggingarstarfið. Með því verði bænum loks stýrt eftir raunhæfri og skýrri sýn sem grundvölluð er á ábyrgri fjármálastjórn og vörn grunnþjónustu sem er íbúum öllum til heilla.“

Fyrri greinSelfoss tapaði í Garðabæ
Næsta greinFimmtán milljón króna styrkur til sveitarfélaganna