Metmánuður í fasteignasölu

Þorlákshöfn. Ljósmynd / Chris Lund

Alls var 146 kaupsamningum um fasteignir þinglýst á Suðurlandi í júnímánuði. Heildarveltan á svæðinu var tæpir 4,7 milljarðar króna og hefur aldrei verið meiri í einum mánuði.

Mesta veltan hingað til á Suðurlandi var í maí 2018, þegar hún var rúmir 4,3 milljarðar króna.

Í júní var þinglýst 22 samningum um eignir í fjölbýli, 63 samningum um eignir í sérbýli og 61 samningum um annars konar eignir. 

Af þessum 146 samningum var 61 samningur um eignir á Selfossi, í Hveragerði og Þorlákshöfn. Þar af voru 14 samningar um eignir í fjölbýli, 44 samningar um eignir í sérbýli og 3 samningar um annars konar eignir. 

Heildarveltan á Árborgarsvæðinu var tæplega 2,4 milljarðar króna sem er stærsti júnímánuður frá því Þjóðskrá Íslands fór að taka saman þessar tölur árið 2005.

Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár Íslands um fasteignamarkaðinn utan höfuðborgarsvæðisins í júní 2020.

Fyrri greinHæfileikabúntið Eyþór Ingi á Hótel Selfossi
Næsta greinHrunamenn semja við tvo Króata