Næsti vetur verður sá fjölmennasti í sögu Fjölbrautaskóla Suðurlands en gert er ráð fyrir að 280 nýnemar hefji nám næsta haust og að nemendur í dagskóla verði rúmlega 1.000.
Næsta haust mun stærsti árgangur sögunnar hefja framhaldsskólanám. Í tilkynningu frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu segir að innritun þeirra hafi gengið vonum framar og að allir séu komnir með pláss í framhaldsskóla.
Þrátt fyrir að nýnemahópurinn sé stór er ekki um að ræða stærsta árgang í sögu FSu því í fyrra voru þeir fjórum fleiri.

„Fjöldi nýnema er á pari við fjölda nýnema í fyrra, þá hófu 284 nýnemar nám, og var það fjölgun um 40 samanborið við árið 2023,“ segir Soffía Sveinsdóttir, skólameistari, í samtali við sunnlenska.is.
„Þetta þýðir talsverða fjölgun í heild, í fyrra voru dagskólanemendur 979 við upphaf haustannar en núna um það bil 1.018. Því verða um 40 fleiri nemendur við nám núna en á sama tíma í fyrra. Fyrir utan þessar tölur eru nemendur á Reykjum og í kvöldskóla en þar er boðið upp á pípulagnir. Samtals eru þetta um 1.200 nemendur. Þá eru nemendur á Litla-Hrauni og grunnskólanemendur í fjarnámi ekki inni í þessum tölum,“ segir Soffía ennfremur.
Nýnemar þurftu að velja að minnsta kosti tvo skóla í umsóknin sinni og allir nýnemar sem höfðu FSu sem fyrsta val fengu pláss í skólanum.

