Metangasframleiðsla arðbær með tilkomu Hvítárbrúar

Heimamenn í uppsveitum Árnessýslu og Sölufélag garðyrkjumanna hafa áhuga á að skoða möguleika á því að koma upp metangasstöð í uppsveitunum.

Metangasstöð sem staðsett væri í uppsveitum Árnessýslu gæti framleitt koltvísýring til notkunar í garðyrkjustöðum, aukið áburðargildi húsdýraúrgangs, framleitt eldsneyti á ökutæki á svæðinu auk 1,9 MW af rafmagni. Velta slíkrar stöðvar gæti numið 800 miljónum á ári en þá er eftir að taka tillit til affalla og fleiri þátta.

Elfa Dögg Þórðardóttir, umhverfisfræðingur, greindi frá þessu á haustfundi Sölufélags garðyrkjumanna sem haldinn var á Flúðum á dögunum. Hún segir uppsveitirnar gjöfult svæði hvað varðar lífrænan úrgang og með tilkomu Hvítárbrúarinnar sé vert að skoða hvort staðsetning og afrakstur bændabýla og garðyrkjustöðva geti stutt við rekstur slíkrar stöðvar.

Við framleiðslu metangass myndast koltvísýringur sem hingað til hafi verið álitin óæskileg afurð en koltvísýringur er hins vegar eftirsótt afurð fyrir garðyrkjubændur því hann auðveldar þeim að nýta betur birtuna frá gróðurhúsalömpunum. Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, segir heimamenn jákvæða gagnvart hugmyndinni.

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, segir að félagið telji borðleggjandi að kalla hagsmunaaðila saman til fundar og leita fjármagns til að leggjast í frekari rannsóknir.

Fyrri greinKveikt á bæjartrénu á Selfossi
Næsta greinSnjókristallar í Listasafninu