Meta ítarlega vindorkugetuna á Hafinu

Rekstur rannsóknarvindmyllanna tveggja, sem Landsvirkjun reisti á Hafinu, ofan Búrfellsvirkjunar, í fyrra hefur gengið vel og segir Landsvirkjun ljóst að miklir möguleikar séu á raforkuvinnslu úr vindorku hér á landi.

Landsvirkjun hefur því ákveðið að meta vindorkugetu svæðisins af meiri nákvæmni með ítarlegri vindmælingum og hermunum ásamt því að leggja mat á, og bera saman, ólíkar tillögur varðandi stærð og staðsetningu mögulegra vindlunda.

Ekki hefur áður verið skoðaður ítarlega sá möguleiki á að setja upp vindlundi á Íslandi og felst því talsverð frumkvöðlavinna í verkefninu s.s. að vinna mat á umhverfisáhrifum og greina þörfina á skipulagsbreytingum, meta mögulegan virðisauka vindlundar fyrir raforkukerfið í heild og tækifærin sem felast í samspili vind- og vatnsorku. Rýna þarf lagaumgjörð og reglur, bæði þær sem eru til staðar og vinna að mótun reglna þar sem þeirra nýtur ekki við.

Markmið verkefnisins er að tryggja, að Landsvirkjun geti stuðst við ítarlegar greiningar og gögn við ákvarðanir um uppbyggingu vindorku sem þriðju stoðarinnar í raforkukerfinu. Verkefnið tekur til ráðgjafarþjónustu vegna undirbúnings að uppbyggingu á vindlundum á Hafinu. Verkefninu er deilt í tvennt þ.e. ráðgjafaþjónusta vegna verkhönnunar annars vegar og ráðgjafaþjónusta vegna mats á umhverfisáhrifum hins vegar.

Skrifað var undir tvo samninga í gær við verkfræðistofurnar Mannvit og Eflu um ráðgjafaþjónustu vegna mögulegrar uppbyggingar vindlunda á Hafinu. Verkhönnun kom í hlut verkfræðistofunnar Eflu sem eru í samstarfi við sænska ráðgjafafyrirtækið Pöyry SwedPower AB og Belging reiknistofu í veðurfræði. Verkfræðistofan Mannvit mun vinna að mati á umhverfisáhrifum. Mannvit er í samstarfi við norska ráðgjafafyrirtækið Ramböll AS og Landslag ehf.

Miðað er við að verkefnið sé unnið á árunum 2013 – 2015.

Það sem af er að ári hefur rekstur vindmyllana gengið vel og engar óeðlilegar rekstrartruflanir orðið. Vindur á hafinu hefur ekki farið langt frá mynstri undangenginna ára og verið nokkuð nærri meðallagi síðan vindmyllurnar risu.

Raforkuvinnsla myllanna hefur einnig verið samkvæmt áætlunum en alls hafa verið unnar um 3150 MWst frá upphafi mælinga. Nægir sú orka til þess að hlaða u.þ.b. hálfan milljarð farsíma.

Hægt er að fylgjast með raforkuvinnslu vindmyllanna tveggja í rauntíma á heimasíðu Landsvirkjunar.

Fyrri greinSundlaugin á Stokkseyri 20 ára
Næsta greinSnöggir að laga skiltið á Eyrarbakka